Sitjandi forseti Króatíu felldur

Eflaust muna einhverjir eftir Kolindu Grabar-Kitarovic, forseta Króatíu, frá úrslitaleik …
Eflaust muna einhverjir eftir Kolindu Grabar-Kitarovic, forseta Króatíu, frá úrslitaleik HM 2018. Hér sést hún með Pútín Rússlandsforseta. AFP

Zoran Milanovic verður næsti forseti Króatíu, en hann hlaut 52,73% atkvæða í seinni umferð forsetakosninganna sem haldnar voru í landinu í dag. Sigraði Milanovic sitjandi forseta Kolindu Grabar-Kitarovic naumlega, en hún hlaut 47,24% atkvæða.

Fyrri umferð forsetakosninganna var haldin í desember. Þá hlaut Milanovic einnig flest atkvæði, 29,55%, en Grabar-Kitarovic var önnur með 26,65% og Miroslav Skoro þriðji með 24,45%. Þar sem enginn frambjóðandi hlaut meira en helming atkvæða var kosið aftur milli tveggja efstu.

Milanovic var áður formaður Jafnaðarmannaflokks Króatíu, og gegndi hann embætti forsætisráðherra frá árinu 2011 til 2016., allt þar til íhaldsflokkur fráfarandi forseta, Grabar-Kitarovic, tók við völdum, en sá flokkur hefur stýrt landinu síðan. Þótt embætti forseta landsins sé fyrst og fremst táknrænt, þykir kosning hans gefa fyrirheit fyrir þingkosningar sem haldnar verða í landinu síðar á árinu. 

Króatar fara með forsæti í Evrópusambandinu næstu sex mánuði, í fyrsta sinn frá því landið gekk í sambandið árið 2013.

Zoran Milanovic á kjörstað í morgun.
Zoran Milanovic á kjörstað í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert