Staðan við Persaflóa „auðvitað alvarleg“

Guðlaugur Þór lagði áherslu á það í máli sínu í …
Guðlaugur Þór lagði áherslu á það í máli sínu í kvöldfréttum Stöðvar 2 að árás Bandaríkjamanna á íranska herforingjann hefði ekki verið gerð í tómarúmi, vitað væri að Íranar hefðu ögrað og ógnað Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að staðan við Persaflóa sé „auðvitað alvarleg“ og íslensk stjórnvöld hafi hvatt til stillingar svo ekki komi til aukinnar stigmögnunar í átökum á svæðinu. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði utanríkisráðherra í beinni útsendingu úr myndveri að mikilvægt væri að alþjóðasamfélagið brygðist við með þeim hætti.

Mikil spenna er nú í Írak og víðar í Mið-Austurlöndum eftir að Bandaríkjamenn réðu Qasam Soleimani, einn áhrifamesta herforingja Írans, af dögum í Bagdað aðfaranótt föstudags. Níu til viðbótar létust í drónaárás Bandaríkjahers, sem hefur leitt til þess að Íraksþing hefur krafist þess að allur erlendur herafli, þar á meðal fjölmennt lið Bandaríkjamanna sem hefur starfað náið með yfirvöldum í Írak, hverfi frá landinu.

Íranar hafi ögrað og ógnað

Guðlaugur Þór lagði áherslu á það í máli sínu í kvöld að árás Bandaríkjamanna á íranska herforingjann hefði ekki verið gerð í tómarúmi, vitað væri að Íranar hefðu ögrað og ógnað Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra. „Þetta er nokkuð sem hefur verið í gangi mjög lengi,“ sagði Guðlaugur Þór.

Hann sagði viðbrögð Íslands vegna málsins „í samræmi við það sem gerist á Norðurlöndunum og bæði í Þýskalandi og Bretlandi“ og bætti við að Ísland væri nú harla neinn lykilleikari í þessari deilu sem hefur verið efst á baugi í heimsfréttunum um helgina.

Er Sindri Sindrason fréttamaður spurði Guðlaug Þór hver hann teldi að áhrifin af þessari þróun yrðu á Evrópuríki sagðist hann telja að aðallega yrðu áhrifin óbein, „sérstaklega í formi hækkunar eldsneytisverðs en það kemur í ljós á næstu dögum og vikum hvernig mál þróast en við skulum vona að þau þróist með sem bestum hætti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert