IKEA gert að greiða 5,6 milljarða í miskabætur

AFP

IKEA þarf að greiða foreldrum tveggja ára gamals drengs, sem lést þegar hann varð undir Malm-kommóðu frá fyrirtækinu, 46 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 5,6 milljarða króna, í miskabætur. Að minnsta kosti átta börn hafa látist eftir að hafa kramist undir kommóðum sem sporðreist­ust og börn­in urðu und­ir.

Malm-kommóða.
Malm-kommóða. Af vef IKEA

Greint var frá dómsátt í máli Jozef Dudek sem lést í Kaliforníu árið 2017 í frétt Washington Post í gær. Þar kemur fram að Jozef hafi klifrað upp á kommóðuna sem sporðreistist og féll á hann. Ári áður hafði verið greint frá því að fjögur börn hefðu látist eftir að hafa orðið undir Malm-kommóðu og voru þær innkallaðar í kjölfarið. Alls náðist að innkalla um 18,3 milljónir kommóða. 

Dudeks-fjölskyldan hafði ekki hugmynd um innköllunina og IKEA hafði aldrei samband við þau vegna þess, að sögn verjanda fjölskyldunnar í gær. Samkvæmt frétt WP er ekki óalgengt að innkallanir sem þessar skili ekki árangri og IKEA greip til þess óvenjulega ráðs að endurbirta innköllunina eftir andlát Jozefs. 

Craig og Joleen Dudek höfðuðu skaðabótamál gegn IKEA og kom fram í málshöfðuninni að IKEA hefði vitað af vandamálinu árum saman án þess að láta laga það. Talið er að fjárhæðin sem þau fá sé sú hæsta sem hefur verið greidd í máli tengdu barni hingað til.

Árið 2016 samþykkti IKEA að greiða þremur banda­rísk­um fjöl­skyld­um miska­bætur upp á 50 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala í sambærilegum málum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert