Með vinstrisinnað hjarta og íhaldssamt höfuð

Hvala! Milanovic og Sanja eiginkona hans fagna kosningasigrinum í Zagreb …
Hvala! Milanovic og Sanja eiginkona hans fagna kosningasigrinum í Zagreb á sunnudag. AFP

Zoran Milanovic var á sunnudag kjörinn nýr forseti Króatíu, en hann hafði naumlega betur gegn Kolindu Grabar-Kitarovic, sitjandi forseta landsins. Milanovic, sem er 53 ára gamall, snýr þannig aftur í hringiðu stjórnmálanna í landinu, eftir að hafa haldið sig til hlés undanfarin þrjú ár, en hann var forsætisráðherra frá 2011 til 2015.

Milanovic er vinstrimaður og var áður formaður Jafnaðarmannaflokks Króatíu. Margir bundu miklar vonir við hann eftir að hann varð forsætisráðherra 45 ára að aldri, en ríkisstjórn hans mistókst að uppfylla væntingar almennings og standa við þær miklu umbætur sem lofað hafði verið.

Honum mistókst því að halda völdum í kosningum árið 2015 og sagði svo af sér formennsku í Jafnaðarmannaflokknum eftir að hafa mistekist að komast til valda á ný í kosningum sem boðað var til árið 2016.

Síðan þá hefur hann stýrt ráðgjafarfyrirtæki sem hefur samkvæmt fregnum fjölmiðla meðal annars haft Edi Rama forsætisráðherra Albaníu á meðal viðskiptavina.

Stuðningsmenn komu saman í Zagreb og fögnuðu.
Stuðningsmenn komu saman í Zagreb og fögnuðu. AFP

Milanovic naut 52,7% stuðnings í forsetakosningunum á sunnudag, en í kosningabaráttunni lofaði hann að gera Króatíu að venjulegu og almennilegu frjálslyndu lýðræðisríki og sagði að hann myndi beita sér fyrir jöfnuði og sjálfstæði dómstóla. Kosningaþátttaka var einungis 55%, en embætti Króatíuforseta er að mestu táknrænt.

Sjálfur hefur Milanovic lýst sjálfum sér á þá vegu að hann sé með „vinstrisinnað hjarta og íhaldssamt höfuð“. Hann er lögfræðingur að mennt og var á sínum yngri árum áhugasamur áhugaboxari, en tók þó aldrei þátt í bardögum heldur kaus að vera einungis æfingafélagi þeirra sem stigu sjálfir inn í hringinn í keppni.

Forsetinn verðandi hóf störf fyrir utanríkisráðuneyti landsins í miðju sjálfstæðisstríði Króata árið 1990 og eftir stríðið starfaði hann um þriggja ára skeið fyrir sendinefndir Króatíu gagnvart Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu í Brussel, áður en hann fór út í pólitík með jafnaðarmönnum árið 1999.

Sanja Music heitir eiginkona Milanovic, en hún er læknir og eiga þau tvo syni.

mbl.is

Bloggað um fréttina