Allir um borð fórust

Flak farþegaþotunnar skammt frá flugvellinum í Teheran í Íran.
Flak farþegaþotunnar skammt frá flugvellinum í Teheran í Íran. AFP

Úkraínsk Boeing-737 farþegaþota með 180 manns um borð brotlenti í nótt í Íran samkvæmt fréttum þarlendra miðla. Samkvæmt upplýsingum frá íranska Rauða krossinum er ekki möguleiki á að nokkur hafi lifað slysið af.

Farþegaþotan, sem er í eigu Ukraine International Airlines, brotlenti fljótlega eftir flugtak frá Imam Khomeini flugvellinum í Teheran, samkvæmt frétt Fars-ríkisfréttastofunnar. Fyrstu fréttir herma að hún hafi verið að fara til höfuðborgar Úkraínu, Kænugarðs. Ekki er vitað á þessari stundu hvort flugslysið tengist á einhvern hátt deilu Írana og Bandaríkjamanna en björgunarsveitir eru á leið á staðinn þar sem vélin brotlenti. 

Fréttin verður uppfærð

Forseti Úkraínu, Volodimír Zelenskí, hefur staðfest að allir farþegar um borð og áhöfn farþegaþotunnar hafi látist.

Boeing 737-800 þota í eigu Ukraine International airline.
Boeing 737-800 þota í eigu Ukraine International airline. AFP
mbl.is