Íran hefnir sín með árásum á herstöðvar í Írak

Íransstjórn skaut fjölda flugskeyta á Al-Asad-herstöðina í Írak í kvöld, en þar er fjöldi bandarískra hermanna staðsettur auk hermanna frá öðrum ríkjum. Flugskeytum hefur einnig verið skotið á herstöðina í Erbil í íraska hluta Kúrdistan, þar sem Bandaríkjaher hefur sömuleiðis viðveru.

Óljóst er hvort eitthvert mannfall hafi orðið í árásunum samkvæmt fyrstu fréttum sem byrjuðu að berast af þessu máli í fjölmiðlum á tólfta tímanum í kvöld.

Bandarískir miðlar greina frá því að Donald Trump forseti fylgist með málinu ásamt þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna, en árásin er sögð hefnd Írans fyrir dráp Bandaríkjahers á herforingjanum Qasem Soleimani, sem borinn var til grafar í dag.

Íranar hafa í kvöld skotið óljósum fjölda eldflauga á tvær …
Íranar hafa í kvöld skotið óljósum fjölda eldflauga á tvær herstöðvar í Írak þar sem Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra, þar á meðal Norðmenn og Danir, hafa viðveru. Óljóst er með mannfall. Mynd frá mótmælum í Teheran á dögunum. AFP

Samkvæmt fréttum bandarískra miðla í kvöld hafði Hvíta húsið byrjað að gera ráðstafanir til þess að Trump gæti ávarpað þjóðina með ræðu í sjónvarpi, en síðar var greint frá því að ekkert yrði af því. Hvíta húsið segist enn fremur ekki ætla að senda frá sér frekari skriflegar tilkynningar vegna árásanna fyrr en nýr dagur rís.

„Við höfum fengið fregnir af árásum á bandarískar stöðvar í Írak. Forsetinn hefur verið upplýstur og fylgist náið með stöðunni og er að ræða málið við þjóðaröryggisteymi sitt,” sagði Stephanie Grisham, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, í fyrstu yfirlýsingu sinni um málið til fjölmiðla.

Ljóst að flugskeytin komu frá Íran

Jonathan Hoffman, fjölmiðlafulltrúi bandaríska varnarmálaráðuneytisins, segir í yfirlýsingu að Íranar hafi skotið yfir tylft flugskeyta á herstöðvarnar tvær. Myndbönd hafa birst í írönskum fjölmiðlum af flugskeytum að fara á loft og má sjá eitt slíkt hér efst í fréttinni.

Flugskeyti á lofti í kvöld. Stillimynd úr útsendingu íranskra ríkisfjölmiðla.
Flugskeyti á lofti í kvöld. Stillimynd úr útsendingu íranskra ríkisfjölmiðla. AFP

„Það er ljóst að þessum flugskeytum var skotið frá Íran,“ er haft eftir Hoffman í bandarískum fjölmiðlum, en hann segir enn óljóst hversu mikið tjón hafi orðið í árásunum. Hann segir að búist hafi verið við árásum og að allar herstöðvar hafi verið í viðbragðsstöðu.

Hóta grimmilegum hefndum svari Bandaríkin árásunum

„Ofsaleg hefnd byltingarvarðliðanna er hafin,“ segir á Telegram-rás írönsku byltingarvarðliðanna, en Íranar hafa samkvæmt fregnum erlendra miðla komið boðum áleiðis um að gripið verði til frekari hefndaraðgerða svari Bandaríkjamenn eða bandamenn þeirra árásunum í kvöld. Ísraelsríki hefur einnig sérstaklega verið hótað.

Fram kemur í bandarískum miðlum að í yfirlýsingum byltingarvarðliðanna á Telegram-rás þeirra sé einnig að finna hótanir um að ráðist verði gegn skotmörkum á bandarískri grundu. Byltingarvarðliðarnir fara raunar mikinn á Telegram og hafa sérstaklega hótað því að ráðast á borgirnar Dubaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Haifa í Ísrael.

Íraskir hermenn í Al-Asad-herstöðinni sem ráðist var á í kvöld. …
Íraskir hermenn í Al-Asad-herstöðinni sem ráðist var á í kvöld. Um er að ræða íraska herstöð þar sem mýmargir hermenn Bandaríkjahers og bandamanna þeirra hafa viðveru. Myndin er frá árinu 2014. AFP

Enginn Norðmaður né Dani særðist

Norðmenn og Danir hafa átt þátt í starfi fjölþjóðlegs herliðs í Írak undanfarin misseri, en Norðmenn eru þar með um 70 hermenn og Danir um 130 manna lið, sem hefur tekið þátt í baráttu gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams og þjálfað íraska hermenn.

Norsku hermennirnir eru nær allir í herstöðinni í Al-Asad sem varð fyrir árásinni í kvöld, en enginn þeirra er særður, samkvæmt því sem Brynjar Stordal fjölmiðlafulltrúi norska hersins segir við norska ríkisútvarpið NRK.

Hið sama á við um dönsku hermennina, þeir eru í lagi samkvæmt frétt danska ríkisútvarpsins DR, en þar er vísað til fréttatilkynningar frá danska hernum.

BBC

NRK

CNN

New York Times

Al Jazeera

DR

Reuters

Associated Press

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert