Játaði fjöldamorð en verjendur ekki á sama máli

Teikning af Satoshi Uematsu.
Teikning af Satoshi Uematsu. AFP

Verjendur manns sem er ákærður fyrir að hafa myrt 19 fatlaða einstaklinga á hjúkrunarheimili í Japan lýstu yfir sakleysi hans við upphaf réttarhalda í málinu í dag. 

Satoshi Uematsu, fyrrverandi starfsmaður á hjúkrunarheimilinu í úthverfi Tókýó, mótmælti ekki aðild að fjöldamorðinu árið 2016 við réttarhöldin í morgun. Eftir að saksóknari las upp ákæruna spurði dómarinn Uematsu hvort það væri eitthvað í ákærunni sem ekki væri rétt og svaraði Uematsu neitandi.

AFP

Segja marijúana ástæðuna

En þrátt fyrir að játa aðild að hnífaárásinni sögðu verjendur hans að hann væri saklaus og að hann glímdi við geðræn vandamál vegna mikillar neyslu á marijúana.

„Hann misnotaði marijúana og glímdi við andleg veikindi. Persónuleiki hans breyttist og vegna þessa gerðist þetta,“ sagði verjandi hans við réttarhöldin í morgun. 

Að sögn verjandans var Uematsu í engu ástandi til að bera ábyrgð á gjörðum sínum á þessum tíma. 

Sagði fatlaða aðeins valda óhamingju

Uematsu hafði áður sagt að hann hafi viljað eyða öllu fötluðu fólki á Tsukui Yamayuri-en heimilinu í bænum Sagamihara skammt frá Tókýó. Auk þeirra sem létust særðust 26 í árásinni. Hann gaf sig fram við lögreglu eftir árásina vopnaður blóðugum hnífum sem hann hafði notað við fjöldamorðið. 

Í ljós kom að Uematsu hafði látið af störfum á hjúkrunarheimilinu nokkrum mánuðum fyrr og verið nauðungarvistaður á sjúkrahúsi eftir að hafa sagt starfsfélögum að hann ætlaði að drepa fatlað fólk á heimilinu.

Þessi mynd var tekin af Satoshi Uematsu sumarið 2016.
Þessi mynd var tekin af Satoshi Uematsu sumarið 2016. AFP

12 dögum fyrir árásina var hann útskrifaður af lækni sem taldi að ekki stafaði ógn af honum. Uematsu hafði einnig ritað bréf þar sem hann lýsti fyrirætlunum sínum um að drepa fólkið en í bréfinu sagði hann fatlað fólk aðeins valda óhamingju. 

Uematsu á yfir höfði sér dauðadóm ef hann verður fundinn sekur í öllum ákæruliðum. Dómurinn verður kveðinn upp 16. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert