Heitasti janúardagurinn í 162 ár

Frá Örebro í Svíþjóð.
Frá Örebro í Svíþjóð. Wikipedia/ Dada.cudla

Hitinn mældist rúmlega 10 gráður í sænska bænum Örebro í gær og hefur hitastigið ekki mælst jafn hátt í bænum í janúar í 162 ár eða frá árinu 1858. Þetta kemur fram á vefnum The Local.

Þar segir að hitinn hafi mælst 10,5 gráður í gær en þrátt fyrir þetta var hlýrra á nokkrum öðrum stöðum í Svíþjóð í gær en víða var 10 stiga hiti þar í landi sem er afar sjaldgæft í janúar. 

Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Svíþjóðar, Ibrahim Al-Mausawe, er þetta ekki met því metið er 12 gráður í janúar. 

Þetta er hins vegar ekkert á við Noreg því hitametin hafa fallið þar í tvígang það sem af er ári. Að vísu bæði sama dag, 2. janúar, þegar hitinn fór í 18,6 gráður í Åndalsnes og síðar um daginn þegar hitinn mældist 19 gráður í Sunndalsøra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert