Trump mundi eftir afmæli Kims

Donald Trump og Kim Jong-un í júní í fyrra. Skin …
Donald Trump og Kim Jong-un í júní í fyrra. Skin og skúrir hafa einkennt vinsamband leiðtoganna en Trump gaf sér þó tíma til að óska Kim til hamingju með afmælið í vikunni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sendi Kim Jong-un heillaóskir á miðvikudag en norðurkóreski leiðtoginn fagnaði 36 eða 37 ára (heimildum ber ekki saman) afmæli sínu í fyrradag. 

Hvorki hefur gengið né rekið í samningaviðræðum Norður-Kór­eu og Banda­ríkj­anna um kjarn­orku­af­vopn­un fyrr­nefnda rík­is­ins frá því að Kim og Trump slitu fundi sín­um í Hanoi í fe­brú­ar í fyrra en Trump lét það ekki aftra sér frá að senda leiðtoganum afmæliskveðju. 

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa aldrei staðfest fæðingardag Kims opinberlega, en flestir muna eftir því þegar fyrrverandi NBA-stjarnan Dennis Rodman heim­sótti Norður-Kór­eu fyrir sex árum og söng af­mæl­is­söng­inn fyr­ir „lífstíðar­vin sinn“ Kim, en það var 8. janúar 2014. 

Gögn sem bandarísk yfirvöld hafa undir höndum sýna að Kim sé fæddur 8. janúar 1984, sem gerir hann 36 ára, en talið er mögulegt að leiðtoginn sé einum eða tveimur árum eldri. 

Trump hitti Chung Euj-yong, þjóðaröryggisráðgjafa Suður-Kóreu, í Washington á miðvikudag og segir hann að Trump hafi munað eftir afmæli leiðtogans og beðið fyrir kveðju, sem hann skilaði.

mbl.is