Trump telur sig eiga skilið Nóbelsverðlaun

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Svo virðist sem Donald Trump Bandaríkjaforseti telji að horft hafi verið framhjá sér við val á handhafa friðarverðlauna Nóbels á síðasta ári. 

„Ég ætla að segja ykkur frá friðarverlaunum Nóbels, ég ætla að segja ykkur frá því. Ég bjó til samning, ég bjargaði landi og var bara núna að heyra að leiðtogi þess lands hafi fengið friðarverlaun Nóbels fyrir að bjarga landinu. Ég sagði: „Ha, hafði ég eitthvað að gera með það?“ Já, en veistu hvað þetta er bara eins og það er. Svo lengi sem við vitum það, það er það eina sem skiptir máli… Ég bjargaði stóru stríði, ég hef bjargað þeim nokkrum,“ sagði forsetinn í ávarpi sínu í Toledo, Ohioríki á fimmtudag. 

Jafnvel þó að forsetinn hafi ekki nefnt  Abiy Ah­med Ali, for­sæt­is­ráðherra Eþíóp­íu á nafn, er ljóst að hann átti við Abiy, sem var valin handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2019. 

Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu.
Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu. AFP

Abiy, 43 ára, er yngsti forsætisráðherra Afríku. Hann tók við embætti í apríl 2018 eftir mótmæli í landinu sem urðu til þess að forveri hans sagði af sér. Abiy stóð að umsvifamiklum endurbótum í Eþíópíu. Hann lét lausa úr haldi þúsundir stjórnarandstæðinga sem höfðu verið fangelsaðir og bauð andófsmenn sem höfðu verið lagðir í útlegð, velkomna heim. 

Í október á síðasta ári var tilkynnt að Aiby yrði handhafi friðarverðlauna Nóbels, en samkvæmt Nóbelsnefndinni vó þyngst í metum við valið starf hans að friði í samskiptum nágrannaríkjanna Eþíópíu og Eritreu. Löndin tvö háðu mannskætt stríð á landamærum ríkjanna á árunum 1998 til 2000. Vopnahlé náðist árið 2000, en formlega komst ekki á friður fyrr en Abiy og Isaias Afwerki, forseti Eritreu, skrifuðu undir friðarsamning í júlí 2018.

Samkvæmt BBC spiluðu Bandaríkin smávægilegt hlutverk í friðarviðræðum ríkjanna árið 2018, en Sameinuðu arabísku furstadæmin spiluðu aftur á móti lykilhlutverk í að leiða ríkin tvö að samningaborðinu.

Óvíst er hvers vegna Trump hafi valið gærdaginn til að vekja athygli á þessu, en Abiy hlaut sem áður segir verðlaunin í október og flutti svo ávarp í Osló í desember. Það vekur athygli að Bandaríkjaforsetinn hefur enn ekki óskað Abiy til hamingju með heiðurinn, ólíkt dóttur hans og ráðgjafa, Ivönku Trump. Þá hefur Mike Pompei, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, einnig óskað Abiy til hamingju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert