„Maður varð auðvitað skelkaður“

Tómas Gauti Jóhannsson segist hafa brugðið þegar tilkynningar bárust í …
Tómas Gauti Jóhannsson segist hafa brugðið þegar tilkynningar bárust í símann hans um að skólinn væri í viðbragðsstöðu vegna hryðjuverkamanns. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var í tíma og fæ allt í einu fullt af tilkynningum í símann og sé að skólinn hafi verið settur í viðbragðsstöðu (e. lockdown). Ég hugsaði bara: Hvað er í gangi?“ segir Tómas Gauti Jóhannsson, nemandi við Bournemouth-háskóla, í samtali við mbl.is um fréttir af hryðjuverkamanni í nágrenni skólans.

Bresku lögreglunni hafði borist, klukkan hálfþrjú að staðartíma í gær, tilkynning um mann sem væri íklæddur sprengjuvesti og þakinn blóði, að því er fram kemur í umfjöllun BBC.

Hluti skólans var læstur í viðbragðsstöðu í rúman hálftíma vegna málsins eða þar til lögreglunni tókst að skoða upptökur úr öryggismyndavélum sem leiddu í ljós að maðurinn sem um var að ræða var ekki í sprengjuvesti heldur sérstöku hlaupavesti með vasa fyrir lóð.

Fullt af vinum í byggingunni

„Ég fer á vefinn og skoða fjölmiðla. Þar sé ég fréttir um útkall og svona. Síðan erum við með innri vef fyrir skólann á Facebook og þar voru sögur í gangi um að það væri blóð út um allt og hnífstungur, það væri maður með byssu og fleira. Það fór í gang einhvers konar ofsóknarbrjálæði og sögur á flug sem ekki var stoð fyrir,“ segir Tómas Gauti.

„Maður varð auðvitað skelkaður, því maður átti fullt af vinum sem voru í byggingunni,“ segir hann og bætir við að hann hafi sjálfur verið í öðrum hluta háskólans. „Ég var alltaf að líta á símann minn. Var frekar hræddur enda óalgengt að það sé mikið um byssur á Englandi.“

Fyndið eftir á

Tómas Gauti segir öryggisverði og lögreglu hafa læst skólanum. „Það tók alveg talsverðan tíma þar til lögreglunni tókst að skoða upptöku úr öryggismyndavélum og komast að því að þetta var maður sem var í hlaupavesti. Það er svo skrýtið að þetta var komið á samfélagsmiðla og í fréttamiðla án þess að nokkur virtist vita hvaðan þessar sögur komu.“

Þrátt fyrir að upplifunin hafi verið óhugnanleg sé atvikið frekar fyndið eftir á að hyggja og hafa gríðarlega margir brandarar verið sagðir um atvikið meðal nemenda, að sögn Tómasar Gauta. Þá hefur verið gerður fjöldi jarma (e. memes) og þeim deilt á innri vef Bournemouth háskólans í kjölfar uppákomunnar.

Dæmi um jarm sem dreift er á innri vef skólans.
Dæmi um jarm sem dreift er á innri vef skólans. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert