„Milljón kílóum léttari“

Manninum var gefið að sök að nauðga tveimur dætra sinna …
Manninum var gefið að sök að nauðga tveimur dætra sinna ítrekað auk þess að beita alls fimm barna sinna grófu ofbeldi árin 2000 til 2003. Hann hlaut níu ára dóm fyrir lögmannsrétti í gær og var gert að greiða börnum sínum 13 milljónir norskra króna, jafnvirði 180 milljóna íslenskra, í þjáninga- og miskabætur. Ljósmynd/Wikipedia.org/Andreas Haldorsen

„Mér líður eins og ég sé milljón kílóum léttari núna en fyrir nokkrum klukkustundum,“ sagði kona á þrítugsaldri við norska ríkisútvarpið NRK eftir að faðir hennar hlaut níu ára dóm í Lögmannsrétti Hálogalands í Tromsø í gær auk þess sem honum var gert að greiða fimm börnum sínum alls 13 milljónir norskra króna, rúmar 180 milljónir íslenskra, í þjáninga- og miskabætur.

Var faðirinn fundinn sekur um að nauðga tveimur dætra sinna ítrekað auk þess að beita öll fimm börnin langvarandi ofbeldi árabilið 2000 til 2003 en þá tóku norsk barnaverndaryfirvöld börnin af heimili mannsins. Börnin fimm, þrjár stúlkur og tveir drengir, voru á aldrinum fjögurra til 16 ára nefnt tímabil.

Það var þó ekki fyrr en árið 2018 sem önnur dætranna, sú sem vitnað er í hér að ofan, lagði fram kæru gegn föður sínum og í kjölfarið kærðu systkini hennar fjögur einnig.

Ógnaði með hnífi

Fjölskyldan kemur frá Mið-Austurlöndum og flutti faðirinn, sem nú er á sjötugsaldri, fyrst einn til Noregs árið 1999. Árið 2000 fékk hann fimm af sjö börnum sínum til landsins, þau börn sem dómsmálið snýst um.

Við rekstur málsins fyrir Héraðsdómi Norður-Troms í fyrravetur lögðu börnin fram ítarlega vitnisburði sína um háttsemi föðurins sem meðal annars mun hafa ógnað þeim með hnífi til að koma fram vilja sínum.

Öll börnin lýstu ofbeldi og hótunum föður síns í smáatriðum fyrir héraðsdómi og kom þar fram að háttsemi hans hefði bitnað verst á tveimur yngstu afkvæmum hans, dreng og stúlku. Enn fremur greindu þau frá því að faðir þeirra hefði gefið þeim fyrirmæli um framburð þeirra við fulltrúa barnaverndaryfirvalda auk þess að refsa þeim hefðu fulltrúarnir samband við hann.

Enn einu sinni ekki tekin trúanleg

Héraðsdómur kvað upp sinn dóm 31. maí í fyrra og var niðurstaðan sakfelling að hluta, rétturinn taldi sannað að maðurinn hefði beitt fjögur barnanna ofbeldi, en sýknaði af þeim ákæruatriðum sem sneru að dótturinni sem lagði fram fyrstu kæruna. Sönnunargögnin gegn föðurnum í þeim hluta málsins töldust að mati héraðsdóms ekki óyggjandi og taldi dómurinn sjö ára fangelsi hæfilega refsingu.

„Enn einu sinni er ég ekki tekin trúanleg, ég upplifi það þannig að kerfið sé að bregðast mér,“ sagði hún við NRK eftir að dómurinn féll í fyrra.

Faðir barnanna hélt sakleysi sínu fram blákalt við rekstur málsins fyrir báðum dómstigum og hélt því fram að systkinin fimm lygju upp á hann. „Ég hef aldrei beitt þau ofbeldi, ég hef verið þeim góður,“ sagði hann fyrir réttinum, „þau voru full haturs þegar þau komu til Noregs vegna þess sem þau fengu að upplifa í heimalandi sínu. Þau voru full af lygi og höfðu frjótt ímyndunarafl.“

Sakfellt í öllum ákæruatriðum

Faðirinn áfrýjaði dómi héraðsdóms og það gerði dóttirin, sem hann var sýknaður af að hafa misgert við, einnig auk þess sem ákæruvaldið áfrýjaði þeim ákæruatriðum sem ekki var sakfellt fyrir. Fór aðalmeðferðin fram fyrir lögmannsrétti í desember.

Lögmannsréttur Hálogalands kvað í gær upp dóm þar sem sakfellt var fyrir öll ákæruatriðin og faðirinn sem fyrr segir dæmdur í níu ára fangelsi og til greiðslu bóta sem nema hátt í 200 milljónum íslenskra króna.

Are Ståle Johnsen, réttargæslulögmaður dótturinnar sem upphaflega lagði fram kæru, sagði við NRK í gær að þar sem hann hefði ekki verið kominn með málið þegar dómur gekk í héraðsdómi vildi hann ekki tjá sig um rök héraðsdóms fyrir sýknudómi að hluta. „En nú er nýr dómur genginn á öðru dómstigi. Þar var hann sakfelldur fyrir öll ákæruatriðin, með réttu að mínu viti,“ sagði Johnsen í gær.

Verjandi föðurins, Abdelilah Saeme, svaraði ekki fyrirspurnum NRK í gær.

NRK (dómurinn í gær)

NRK II (dómur héraðsdóms)

NRK III (skipað að ljúga að barnaverndarnefnd)

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert