„Biðjist afsökunar, segið af ykkur“

AFP

Yfirmaður írönsku byltingarvarðanna, Hossein Salami, fer yfir stöðu mála á íranska þinginu í dag. Þar á meðal drápið á Qasem Soleimani, yfirmanni Quds-sér­sveit­anna sem hafa það verk­efni að sinna hags­mun­um Írans er­lend­is. Soleimani var drepinn í drónaárás Bandaríkjahers í Írak með samþykki Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna.

Mynd sem yfirvöld í Úkraínu sendu frá sér sem sýna …
Mynd sem yfirvöld í Úkraínu sendu frá sér sem sýna göt á flugvélinni sem var skotin niður á miðvikudagsmorgun. AFP

Quds-sveit­irn­ar (en nafnið kem­ur úr ar­ab­ísku og þýðir Jerúsalem og vís­ar til þess að sveit­irn­ar voru stofnaðar til þess að ná yf­ir­ráðum yfir borg­inni) heyra ekki und­ir for­seta lands­ins held­ur beint und­ir erkiklerk­inn sem er mun valda­meiri en for­seti lands­ins.

Samkvæmt frétt ISNA, sem er hálfopinber fréttastofa, er Salami á lokuðum fundi með þingmönnum. Eins mun hann fjalla um viðbrögð byltingarvarðanna við drápinu, þar á meðal eldflaugaárásir á herstöðvar Bandaríkjamanna í Írak. Samkvæmt ISNA mun Salami jafnframt fara yfir mistök sem gerð voru þegar farþegaþotu Ukraine International Airlines, Boeing 737, var grandað og allir um borð, 176, létust. Flestir þeirra sem létust voru Íranar og Kanadabúar. Þar af margir með tvöfalt ríkisfang. Margir þeirra voru námsmenn.

AFP

Írönsk yfirvöld viðurkenndu í gær að þotan hafi verið skotin niður á miðvikudagsmorgun. Að loftvarnakerfi þeirra hafi verið á hæsta viðbúnaðarstigi og sá sem skaut eldflauginni á loft hafi gert það að eigin frumkvæði. 

Lögregla dreifði hópi námsmanna við Amir Kabir-háskólann í Teheran í gærkvöldi en fólkið hafði komið saman til að minnast þeirra sem létust er farþegaþotan var skotin niður. Samkoman breyttist fljótlega í mótmæli. Námsmennirnir kölluðu „lygarar“ og kröfðust afsagnar og saksóknar á hendur þeim sem bera ábyrgð á því að þotan var skotin niður og reyndu síðan að hylma yfir raunverulega ástæðu flugslyssins. 

Dagblöðin í Teheran í morgun.
Dagblöðin í Teheran í morgun. AFP

Fjölmörg dagblöð í Íran minnast þeirra sem létust í dag og er forsíða margra dagblaða þar í landi svört í dag.

„Biðjist afsökunar, segið af ykkur,“ segir í fyrirsögn á forsíðu Etemad-dagblaðsins í dag. „Ótrúlegt“ er fyrirsögnin á öðru blaði umbótasinna í Íran, Arman-e Meli. „Ófyrirgefanlegt,“ segir í fyrirsögn ríkisstjórnarinnar í Íran en blaðið birti í dag nöfn allra þeirra sem fórust og birti mynd af braki Boeing-þotunnar. 

AFP

Kayhan, blað harðlínumanna, keyrði á ummælum æðstaklerks Írans, Ali Khamenei's, um að rannsókn verði haldið áfram og engu leynt varðandi atvikið. „Innilega afsökunar á sársaukafullum mistökum,“ segir á forsíðu Javan sem er með náin tengsl við byltingarverðina. 

AFP

Sendiherra Breta í Íran, Rob Macaire, var handtekinn í gær og haldið í varðhaldi í hálfa klukkustund í gærkvöldi. Hann neitar því að hafa tekið þátt í mótmælunum líkt og haldið hafi verið fram.

„Ég get staðfest að ég tók ekki þátt í neinum mótmælum! Fór á viðburð sem skipulagður var sem minningarstund fyrir fórnarlömb #PS752 harmleiksins,“ skrifar Rob Macaire á Twitter í morgun.

Hann segir ekkert athugavert við að hann hafi viljað minnast þeirra sem létust en einhver þeirra voru bresk. Mcaire segist hafa yfirgefið torgið fimm mínútum síðar en þá voru einhverjir byrjaðir að hrópa. „Að handtaka diplómat er að sjálfsögðu ólöglegt í öllum löndum,“ skrifar hann. 

Samkvæmt upplýsingum frá bresku ríkisstjórninni er handtaka Macaire svívirðilegt brot á alþjóðalögum. Yfirvöld í Teheran hafa ekki enn gefið út yfirlýsingu vegna málsins.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina