Eldflaugum skotið á herstöð í Írak

AFP

Eldflaugar skullu á íraskri herflugstöð norður af Baghdad þar sem herlið Bandaríkjahers hafði aðsetur í dag. Talið er að fjórir íraskir hermenn hafi slasast. 

Stærstur hluti herliðs Bandaríkjahers á Al-Balad-herflugstöðinni hafði þegar yfirgefið herstöðina í kjölfar aukinnar spennu á milli Írans og Bandaríkjanna síðustu tvær vikur. Flestir þeirra Bandaríkjamanna sem höfðu aðsetur í herstöðinni voru ráðgjafar og sérfræðingar í flugmálum og viðhaldi flugvéla. Aðeins 15 bandarískir hermenn eru nú eftir í herstöðinni, en svo virðist sem enginn þeirra hafi slasast. 

Samkvæmt AFP var 8 eldflaugum af gerðinni Katyusha skotið á herstöðina. Tveir liðsforingjar og tveir flugmenn slösuðust. Ekki er vitað hvaðan eldflaugunum var skotið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert