Mótmælendur brenndu breska fánann

Mótmælendur í Íran kveiktu í breska ríkisfánanum.
Mótmælendur í Íran kveiktu í breska ríkisfánanum. AFP

Íranskir mótmælendur kveiktu í breska ríkisfánanum fyrir utan breska sendiráðið í Teheran í dag, en sendiherra Bretlands í Teheran var handtekinn tímabundið í gær. 

Um 200 mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan breska sendiráðið í dag og hrópuðu „dauði Bretlands“. 

Sendi­herra Bret­lands, Rob Macaire, var viðstadd­ur minn­ing­ar­at­höfn um þá sem lét­ust þegar úkraínska farþegaþotan var skot­in niður. Fljót­lega brutust út mótmæli á minningarathöfninni og segist Macaire þá hafa yfirgefið svæðið. Hann var svo handtekinn skömmu síðar en sleppt fljótlega eftir það. 

Að sögn aðstoðar­ut­an­rík­is­ráðherra Írans, Seyed Abbas Arag­hchi, var Macaire hand­tek­inn sem óþekkt­ur út­lend­ing­ur á ólög­legri sam­komu. Eft­ir að í ljós kom hver væri á ferðinni var hon­um sleppt.

Írönsk stjórnvöld boðuðu svo Macaire á sinn fund í dag og kvörtuðu undan „óhefðbundinni hegðun hans að mæta á ólöglegan fund“.

Ganga í kringum fána Ísraels og Bandaríkjanna 

Fjölmargir háskólanemar hafa forðast að ganga yfir fána Ísraels og Bandaríkjanna sem málaðir eru á götu Tehran, en svo virðist sem það sé gert til að sýna mótstöðu gegn stjórnvöldum í Íran. 

Á myndskeiðum má sjá nemendurna ganga fram hjá, í stað þess að ganga yfir fánana, sem málaðir eru á götu á háskólasvæði Shadid Beheshti-háskólans. Fánarnir voru málaðir á göturnar svo að þeir sem gengju um þær myndu móðga bæði löndin sem eru talin vera óvinir Írans.

Þúsundir mótmælenda hafa hrópað slagorð gegn írönskum stjórnvöldum á götum Teheran eftir að yfirvöld játuðu að hafa fyrir slysni skotið niður úkraínska farþegaflugvél í síðustu viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert