Þóttist vera 16 ára piltur

Gemma Watts til vinstri og Watts sem Jake Waton til …
Gemma Watts til vinstri og Watts sem Jake Waton til hægri. Lundúnalögreglan/PA

Gemma Watts, 21 árs gömul bresk kona, kom fyrir dóm á föstudaginn en hún er ákærð fyrir að hafa misnotað fjórar unglingsstúlkur kynferðislega með því að þykjast vera sextán ára gamall piltur. Watts játaði sök og á yfir höfði sér fangavist. Alls er um sjö brot að ræða gegn stúlkunum fjórum, þremur fimmtán ára og einni fjórtán ára. Fram hefur komið að lögregla telur brotin mun fleiri, allt að fimmtíu. Misalvarleg þó.

Ferðaðist með lestum

Að sögn Press Association-fréttaveitunnar ferðaðist Watts með lestum vítt og breitt um landið og kynntist stúlkum sem töldu sig eiga vingott við pilt á sínu reki.

Watts batt sítt hár sitt í snúð og gekk um með hafnaboltahúfu og í jogginggalla með hettu í þeim tilgangi að sannfæra stúlkurnar um að hún væri í raun hinn sextán ára gamli „Jake Waton“. Hún mun hafa notað samfélagsmiðlana Snapchat og Instagram til að hafa uppi á stúlkum á aldrinum fjórtán til sextán ára. Watts skiptist á myndböndum við stúlkurnar og sló þeim gullhamra til að freista þess að nálgast þær. Í einhverjum tilvikum munu viðkvæmar ljósmyndir hafa skipt um hendur. Á endanum hitti Watts síðan stúlkurnar undir fjögur augu og lét þá til skarar skríða.

Sannfærandi framganga

Í breskum fjölmiðlum kemur fram að öll fórnarlömb Watts hafi verið sannfærð um að þau ættu í sambandi við pilt á táningsaldri þangað til lögregla steig inn í atburðarásina. Hermt er að framganga Watts, sem býr með móður sinni í Lundúnum, hafi verið mjög sannfærandi og að hún hafi jafnvel varið tíma með foreldrum sumra stúlknanna sem „Jake“.

„Þetta hefur breytt lífi allra fórnarlambanna,“ hefur blaðið The Independent eftir talsmanni Lundúnalögreglunnar, Phillipu Kenwright. „Stúlkurnar töldu sig allar vera í sambandi við táningspilt en komust að því að það var í raun og veru kona. Í sumum tilvikum var um fyrsta samband að ræða. Hún hafði þær að ginningarfíflum. Mörg þessara fórnarlamba eru ung og saklaus,“ segir Kenwright.

Hún á fastlega von á því að fleiri fórnarlömb stígi fram nú þegar Watts hefur verið afhjúpuð og gerir því skóna að þau geti verið á bilinu tuttugu til fimmtíu talsins í það heila. „Ég held að hún hafi verið að leggja snörur sínar fyrir fleiri fórnarlömb á samfélagsmiðlum en þar er saga hennar mjög trúverðug,“ segir Kenwright.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert