Vill efla traust og auka gagnsæi

David Calhoun, nýr forstjóri bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing.
David Calhoun, nýr forstjóri bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing. AFP

Fram kemur í tölvupósti, sem nýr forstjóri bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing, David Calhoun, sendi starfsfólki fyrirtækisins í dag eftir að hann tók formlega við starfinu, að meðal annars þurfi að leggja áherslu á heiðarleika og gagnsæi í starfsemi þess.

Fram kemur í frétt AFP að Calhoun, sem tók við af Dennis Muilenburg sem rekinn var í desember, hafi í tölvupóstinum lofað árangur forvera síns í starfi og hvatt starfsmenn til að leggja sitt af mörkum til þess að endurheimta traust og efla á nýjan leik tengsl við viðskiptavini, samstarfsaðila og stjórnvöld.

Calhoun sagði Boeing öflugt fyrirtæki en það væru tækifæri til þess að gera enn betur. Mun betur. Í því fælist meðal annars aukið gagnsæi í starfsemi fyrirtækisins og gagnvart hluthöfum. Fyrirtækið þyrfti að geta staðist ýtrustu gæða- og öryggiskröfur.

Fáeinir dagar eru síðan Boeing birti tölvupósta innan úr fyrirtækinu þar sem meðal annars kom fram sú skoðun eins starfsmanns að farþegaþotan Boeing 737 MAX hefði verið hönnuð af trúðum. Calhoun sagði forgangsmál að koma þotunni aftur í loftið en hún hefur verið kyrrsett víða um heim síðan í mars á síðasta ári í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert