Fundust látin á víðavangi

Rauði punkturinn sýnir hvar lík af karlmanni og konu fundust …
Rauði punkturinn sýnir hvar lík af karlmanni og konu fundust í gær á vinsælu útivistarsvæði við Gullfjellet austur af Bergen við vesturströnd Noregs. Kort/Mapbox

Það var um hádegisbil í gær sem lögreglunni í Bergen í Noregi barst símtal frá göngufólki við Gullfjellsvegen sem liggur gegnum vinsælt útivistarsvæði austur af borginni. Sögðust tilkynnendur hafa gengið fram á blóðug klæði í læk við veginn.

Þegar lögreglumenn komu á vettvang og tóku að svipast um í nágrenninu gengu þeir fljótlega fram á tvö lík, annað af 29 ára gamalli konu og hitt af rúmlega fertugum manni, sem lágu undir einhvers konar ábreiðu eða dúk.

Eftir líkfundinn lokaði lögregla öllum leiðum að svæðinu og hóf tæknideild rannsókn á vettvangi auk þess sem rannsóknarlögreglunni Kripos var tilkynnt um líkfundinn og kafarar sendir til leitar í Osa-vatninu sem er skammt frá, kynni það að geyma frekari vísbendingar.

Kennsl voru fljótlega borin á hin látnu, sem lögregla segist þekkja til, en seint í gærkvöldi hafði aðstandendum þeirra ekki verið tilkynnt um málið.

Tvær handtökur

Lögregla hélt blaðamannafund undir kvöld í gær og tilkynnti þar að málið væri rannsakað sem sakamál. „Við vinnum út frá nokkrum kenningum en ein þeirra er að báðum manneskjunum hafi verið ráðinn bani,“ sagði Inger-Lise Høyland frá ákærudeild lögreglunnar á fundinum en þar kom einnig fram að lögregla teldi mögulegt að um væri að ræða manndráp og sjálfsmorð.

Lögregla tók þegar að ræða við vini og kunningja hinna látnu í gærkvöldi með það fyrir augum að fá botn í hvað mögulega hefði gerst.

Inger-Lise Høyland frá ákærudeild lögreglunnar í Bergen og Tore Salvesen …
Inger-Lise Høyland frá ákærudeild lögreglunnar í Bergen og Tore Salvesen rannsóknarlögreglumaður fara yfir stöðu málsins á blaðamannafundi sem norska ríkisútvarpið NRK sýndi beint frá í gær. Skjáskot/NRK

Það var svo seint í gærkvöldi sem lögregla greindi frá því að hún hefði handtekið tvo menn í Bergen sem grunaðir eru um manndráp eða samverknað við manndráp og komu lögreglumenn frá Kripos til Bergen í gærkvöldi til fulltingis við yfirheyrslur.

Fylltist vantrú

Lögregla sagði fjölmiðlum í gærkvöldi að hún útilokaði ekki fleiri handtökur síðla kvölds eða í nótt en auk þess er fólk sem verið hefur á ferð í nágrenni við Gullfjellet síðustu daga beðið að setja sig í samband við lögreglu hafi það orðið einhvers vart sem kalla mætti óvenjulegt.

Dagblaðið VG ræddi við Alfred Unneland í gær, göngugarp sem oft leggur leið sína um svæðið við Gullfjellet og Osa-vatnið og er vel kunnur staðháttum. Unneland sagðist verulega brugðið við fréttir af tvöföldum líkfundi á þessu vinsæla útivistarsvæði. „Þegar maður fær svona lagað framan í sig hérna í nágrenninu fyllist maður bara vantrú. Þetta er alveg skelfilegt og ákaflega sorglegt,“ sagði Unneland við VG í gærkvöldi.

NRK

VG

Bergens Tidende

Dagbladet

Adresseavisen

mbl.is