Rannsaka „Hitler“ á mótorhjóli

Ferðamaður í Bangkok í stuttermabol merktum Hitler.
Ferðamaður í Bangkok í stuttermabol merktum Hitler. AFP

Þýska lögreglan rannsakar mál sem kom upp um síðustu helgi þegar karlmaður í gervi Hitlers ók um hátíðarsvæði í borginni Augustusburg skammt frá Chemnitz.

Fylgir sögunni að maðurinn hafi vakið meiri kátínu heldur en reiði á meðal hátíðargesta.

„Þegar fólk klæðir sig upp eins og Adolf Hitler er alltaf þörf á að rannsaka málið,“ sagði talsmaður lögreglunnar í Saxlandi.

Falski foringinn mætti á hátíð þar sem áhugafólk um mótorhjól safnast saman. Hann var farþegi í hliðarvagni mótorhjóls, sem maður klæddur eins og þýskur hermaður ók.

Fólk heyrðist hlæja þegar ekið var fram hjá því og einn lögreglumaður á svæðinu tók upp símann sinn og smellti myndum. „Við hefðum viljað að samstarfsmenn okkar stöðvuðu allt slíkt án tafar,“ sagði talsmaðurinn.

Michael Kretschmer, æðsti embættismaður Saxlands, fordæmdi hegðun Hitlers-eftirhermunnar. „Að klæða sig upp eins og fjöldamorðingi felur í sér meira en slæman smekk,“ tísti hann á Twitter og sagði hegðunina óásættanlega.   

Um 1.800 vélhjólakappar og 7.500 gestir tóku þátt í hátíðinni í Saxlandi, sem áður var hérað í Austur-Þýskalandi, og hefur komist í fréttirnar í tengslum við hægriöfgamennsku og nýnasisma síðustu árin.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert