Vonir Ástrala glæðast

Vonir Ástrala um að hörmungum vegna kjarrelda í landinu fari að ljúka glæddust í dag þegar byrjaði að rigna og kólnaði í veðri. Spáð er úrhelli í Nýja Suður-Wales og Victoria. Tennisstjörnur heimsins fóru ekki varhluta af áhrifum eldanna þar sem reykjarmökkur og mengun frá þeim hafði veruleg áhrif á viðburði tengda fyrsta Grand Slam-móti ársins.

Vegna kólnandi veðurs að undanförnu hefur verið hægt að ná stjórn á stærstu eldunum og fréttir af rigningu glöddu slökkviliðsmenn í ríkjunum tveimur í dag. 

Slökkviliðsstjórinn í dreifbýli NSW,  Shane Fitzsimmons, fagnaði fréttunum og segir að talað hafi verið um það í mánuði að vonir væru bundnar við breytingu á tíðarfari í janúar. „Við höfum talað um það mánuðum saman að janúar yrði sá mánuður sem von væri á almennilegri rigningu og svo virðist sem það gangi eftir á næstu dögum,“ segir hann. 

Byrja á að rigna í austurhluta Ástralíu á morgun og er gert ráð fyrir rigningu þar fram yfir helgi. Að sögn veðurfræðings standa vonir til þess að það rigni hressilega á þeim svæðum sem eldarnir geisa á. 

Reykjarmökkur liggur yfir höfuðstað Victoria-ríkis, Melbourne, en þar hefst opna ástralska mótið í tennis í byrjun næstu viku. Heilbrigðisyfirvöld í ríkinu vara fólk við því að vera úti við í borginni en mengunin í borginni er skráð hættuleg í dag. Stjörnur eins og Rafael Nadal og fleiri ákváðu því að sleppa útiæfingum í dag og eins þurfti að fresta undankeppnum á mótinu vegna mengunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert