Fékk aldrei peningana sem söfnuðust

Wu Huayan lést úr vannæringu á mánudag.
Wu Huayan lést úr vannæringu á mánudag. Skjáskot úr myndskeiðinu

Kínverjar á samfélagsmiðlum eru æfir og krefjast svara eftir að fréttir bárust af andláti háskólanema sem hafði innan við einn Bandaríkjadal til framfærslu þrátt fyrir að almenningur hafi safnað og ánafnað ungu konunni þúsundum Bandaríkjadala. 

Wu Huayan, sem glímdi við alvarlega vannæringu og var munaðarlaus, lést á mánudag samkvæmt fréttum kínverskra fjölmiðla. Unga konan, sem var 24 ára gömul, hafði tvo júana, sem svarar til tæplega 36 króna, til að kaupa sér mat á dag. Lifði hún á hrísgrjónum bragðbættum með chili-pipri til þess að geta greitt lækniskostnað yngri bróður.

Þegar fréttist af andláti hennar vöknuðu grunsemdir um að fé sem hafði verið safnað fyrir hana hafi aldrei ratað á réttan stað. Í fyrra safnaðist rúmlega ein milljón júana, sem svarar til 17,8 milljóna króna, fyrir hana þegar fréttist af vannæringu Wu. Á þeim tíma vó hún 21 kíló. 

Samkvæmt upplýsingum frá hjálparsamtökunum sem önnuðust söfnunina á netinu, China Charities Aid Foundation for Children (CCAFC), fékk Wu aðeins 20 þúsund júana, 369 þúsund krónur, fyrir eigin læknismeðferð og fékk hún peningana afhenta í nóvember. Hópfjármögnunarfyrirtækið segir í tilkynningu á netinu að Wu og fjölskylda hennar hafi viljað geyma afganginn af peningnum til seinni tíma. Hvað varð um afganginn af peningunum verði útskýrt síðar, segir í tilkynningu CCAFC.

En kínverskir netverjar taka þessum skýringum með varúð. „Þeir sem drógu að sér féð eiga skilið að deyja,“ skrifar einn reiður notandi á Weibo, sem er kínverska útgáfan af Twitter. „Aldrei treysta þessum rusl-góðgerðarsamtökum,“ skrifar annar. Þegar AFP-fréttastofan óskaði eftir svörum frá CCAFC fengust engin viðbrögð.

Myndskeið sem fjallar um vannæringu Wu og dauða var sett á netið í dag og eru yfir fimm milljónir búnar að skoða myndskeiðið. Í myndskeiðinu sést Wu liggjandi á sjúkrabeði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert