Haraldur útskrifaður

Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning sýna Borut Pahor, forseta Slóveníu, …
Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning sýna Borut Pahor, forseta Slóveníu, skíðastökkpallinn í Holmenkollen í Ósló í opinberri heimsókn Pahor í nóvember, sem betur fer áður en svimaköst tóku að sækja á konung. Hann hefur nú verið útskrifaður af sjúkrahúsi og er á batavegi samkvæmt upplýsingum frá konungshöllinni. AFP

Haraldur Noregskonungur var útskrifaður af sjúkrabeði í Ríkissjúkrahúsinu í Ósló í morgun en þar hafði konungur legið frá því um miðja síðustu viku þegar rétt þótti að leggja hann inn vegna þrálátra svimakasta. Haraldur er þó enn í veikindafríi frá konunglegum skyldum sínum og verður næstu vikuna en læknar fundu engin merki um að alvarlegir kvillar þyngdu þjóðhöfðingjanum sem verður 83 ára í febrúar.

Hákon krónprins hleypur í skarðið og gegnir skyldum föður síns þar til hann hefur náð sér að fullu. Krónprinsinn ræddi við norska fjölmiðla á mánudaginn og tjáði þeim að Haraldur væri á batavegi og von á honum heim í höllina innan skamms. Síðustu tvær vikur hefðu tekið á en konungsfjölskyldan legði sig fram um innbyrðis samstöðu.

Segja má að norska konungsfjölskyldan hafi ekki átt sjö dagana sæla því á jóladag bárust þau ótíðindi að Ari Behn, rithöfundur, myndlistarmaður og fyrrverandi eiginmaður Mörtu Lovísu prinsessu, hefði svipt sig lífi.

Haraldur konungur og Sonja drottning hafa neyðst til að boða forföll við ýmsar athafnir og uppákomur vegna veikinda konungs, má þar nefna heimsókn Haraldar á borpallasamstæðu Equinor vegna formlegrar opnunar Johan Sverdrup-olíuvinnslusvæðisins vestur af Stavanger, en svo sem kunnara er en frá þurfi að segja hlýtur byr að ráða þótt kóngur vilji sigla. Erna Solberg forsætisráðherra ræsti því olíuvinnslu á Johan Sverdrup formlega.

Gert er ráð fyrir að Haraldur ljúki sjúkraleyfi sínu og taki á ný við embættisskyldum undir lok næstu viku.

NRK

VG

Dagbladet

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert