Losuðu eldsneyti yfir grunnskóla

AFP

Farþegaþota þurfti að öryggislenda á alþjóðaflugvellinum í Los Angels í gær en flugmennirnir losuðu eldsneyti af vélinni á leið til lendingar. Að minnsta kosti 60 manns þurftu að leita á sjúkrahús eftir að hafa fengið eldsneytið á sig en það fór meðal annars yfir sex skóla borgarinnar. Allir þeir sem þurftu að leita sér læknisaðstoðar, meðal annars vegna öndunarerfiðleika og óþæginda í húð, eru börn. 

Þotu Delta-flugfélagsins var snúið við vegna vélarbilunar og er mikil reiði meðal íbúa og yfirvalda vegna ákvörðunar flugstjórans að losa eldsneyti yfir íbúabyggð. Flugfélagið hefur staðfest að ákvörðun hafi verið tekin um að losa eldsneytið til að draga úr þyngd vélarinnar við lendingu.

Í Park-grunnskólanum í Cudahy, sem er 26 km austur af flugvellinum, voru tveir bekkir úti þegar eldneytið var losað.

Elizabeth Alcantar, bæjarstjórinn í Cudahy, er mjög ósátt við ákvörðunina um að losa eldsneytið enda séu lítil börn í skólanum. 

Málið er til rannsóknar hjá flugmálayfirvöldum. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert