Tveir létust í sprengingu í efnaverksmiðju

AFP

Slökkviliðsmenn hafa fundið lík tveggja í rústum efnaverksmiðju í Katalóníu en sprenging varð í verksmiðjunni í gær. Gríðarlegur eldur blossaði upp í kjölfar sprengingarinnar sem logaði langt fram á nótt.

Miquel Buch, héraðsstjóri Katalóníu, staðfestir að tveir hafi látist, annar í rústum verksmiðjunnar í iðnaðarhverfi skammt fyrir utan hafnarborgina Tarragona. Sá sem fannst í morgun starfaði í verksmiðjunni. Hundruð slökkviliðsmanna tóku þátt í slökkvistarfinu í alla nótt en sprengingin varð um klukkan 19 að staðartíma.

Hrikalegar myndir hafa verið birtar sem sýna þegar sprengingin varð. Risastór eldhnöttur og jörðin lék á reiðiskjálfi. 

AFP

Einn lést þegar málmplata þeyttist upp í sprengingunni og hafnaði á húsi í nokkurra kílómetra fjarlægð. Tveir voru fluttir á sjúkrahús með alvarleg brunasár en einn er með minni háttar brunasár. Fimm eru með minni háttar áverka. 

Ekki er vitað hvað olli sprengingunni í IQOXE-verksmiðjunni en hún sérhæfir sig í framleiðslu á etýlenoxíðum, etýlenglýkóli og própýlenoxíði.  

Slökkviliðsmenn og heilbrigðisyfirvöld segja að engin eiturefni hafi fundist í nágrenni verksmiðjunnar. Efnin í verksmiðjunni séu afar eldfim en ekki eitruð.

mbl.is