18 ára í haldi vegna manndráps

Halil Kara var skotinn til bana fyrir utan veitingastaðinn Prinsdal …
Halil Kara var skotinn til bana fyrir utan veitingastaðinn Prinsdal Grill í Ósló laust fyrir miðnætti á föstudaginn. Hann starfaði í grunnskóla í Søndre Nordstrand og varð samfélagi múslima í borgarhlutanum harmdauði en mörg hundruð manns sóttu kveðjuathöfn á þriðjudagskvöldið áður en kista Kara lagði af stað með 20 manna fylgdarliði til Antalya í Tyrklandi þar sem hann verður lagður til hinstu hvílu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Átján ára gamall maður er í haldi lögreglunnar í Ósló, grunaður um að hafa skotið annan, 21 árs gamlan, til bana fyrir utan veitingastaðinn Prinsdal Grill þar í borg seint á föstudagskvöldið. Lögregla handtók manninn í gærkvöldi en auk hans leitar lögregla annars manns, sem talinn er viðriðinn málið en hefur ekki fundist. Er sá eftirlýstur hvort tveggja í Noregi og alþjóðlega.

„Þetta er ungur maður frá Ósló. Lögreglan hefur ekki haft afskipti af honum áður,“ sagði Grete Lien Metlid yfirlögregluþjónn í samtali við norska dagblaðið VG í gærkvöldi, spurð út í hinn handtekna. 

John Christian Elden hefur verið skipaður verjandi mannsins og sagði í gærkvöldi að skjólstæðingur hans hefði ekki verið yfirheyrður enn sem komið væri. „Ég ræddi stuttlega við hann í síma. Hann hefur það ágætt en skilur ekki hvers vegna hann var handtekinn og bíður þess að verða yfirheyrður á morgun [í dag],“ sagði Elden við VG.

Atlagan hnitmiðuð

Metlid vill ekki tjá sig nákvæmlega um hvern hlut lögregla telur hvorn hinna grunuðu hafa átt að máli þegar Halil Kara, 21 árs gamall tyrkneskur maður, var skotinn til bana á föstudagskvöldið en lögreglan gaf það út á sunnudag að atlagan að Kara hefði verið hnitmiðuð og greinilega beinst að honum einum. Annar maður hlaut þó stungusár þegar til átaka kom við árásarmanninn eða -mennina. Lögregla hefur enn sem komið er ekki viljað tjá sig um hvort undirrótin hafi verið persónulegur ágreiningur eða ýfingar glæpagengja.

Mörg hundruð manns sóttu kveðjuathöfn í mosku í Søndre Nordstrand í Ósló á þriðjudagskvöldið þar sem kista hins látna stóð á miðju gólfi. Halil Kara var, að sögn þeirra sem norskir fjölmiðlar hafa rætt við, hvers manns hugljúfi og starfaði í grunnskóla í Søndre Nordstrand. Skólastjóri sendi SMS-skilaboð til allra foreldra nemenda við skólann á laugardag og sagði af vígi Kara. Áfallahjálparteymi á vegum Menntamálastofnunar Óslóar heimsótti skólann á mánudaginn og ræddi við starfsfólk og nemendur.

Tuttugu manna hópur náinna vina og ættingja fylgir nú kistu Kara til Antalya í Tyrklandi, heimabæjar foreldra hans, þar sem hann verður lagður til hinstu hvílu.

VG

VG II (kveðjuathöfnin)

NRK

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert