„Allir vita að þetta er bull“

Trump virðist hafa litlar áhyggjur af komandi réttarhöldum.
Trump virðist hafa litlar áhyggjur af komandi réttarhöldum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti spáir því að réttarhöldin yfir honum í öldungadeild Bandaríkjaþings muni taka skjótan enda sé ákæran á hendur honum eitt stórt gabb.

„Ég held að þetta muni enda mjög fljótt. Þetta er bull og allir vita að þetta er bull,“ sagði Trump við fjölmiðla á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu fyrr í kvöld.  

Trump er sakaður um að hafa látið frysta neyðaraðstoð til Úkraínu til að reyna að þrýsta á stjórnvöld þar í landi til að rannsaka demókratann Joe Biden og son hans. Joe Biden býður sig fram sem forsetaefni Demókrataflokksins og verður mögulega andstæðingur Trump í komandi forsetakosningum.

„Ég veit ekki hver hann er“

Lev Parnas, fyrrverandi aðstoðarmaður Rudy Giuli­ani, fyrr­ver­andi lög­manns Don­alds Trump, seg­ir for­set­ann hafa vitað „ná­kvæm­lega hvað var í gangi“ varðandi þrýst­ing á úkraínsk stjórn­völd um að rann­saka fyrr­ver­andi vara­for­set­ann Joe Biden og son hans.

Parnas sagði enn fremur að áætlun Giuliani og Trump hafi aldrei verið að láta rannsaka meinta spillingu þeirra feðga heldur hafi fyrst og fremst átt að valda Joe Biden orðsporsskaða.

Spurður um þau ummæli sagðist Trump ekki hafa hugmynd um hver Parnas væri.

„Ég veit ekki hver hann er og ég held að ég hafi aldrei talað við hann,“ sagði Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert