Hvíta húsið braut lög

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Hvíta húsið braut lög þegar áður samþykkt neyðaraðstoð til Úkraínu var fryst. Ríkisendurskoðun Bandaríkjanna komst að þessari niðurstöðu en greinargerð hennar var birt fyrr í dag.

Þar segir að fjárhagsaðstoðin hafi verið fryst til að reyna að þrýsta á stjórnvöld í Úkraínu að rannsaka demókratann Joe Biden og son hans.

Aðstoðarmaður Rudy Guliani, fyrrverandi lögmanns Donalds Trump, hefur látið hafa eftir sér að ætlunin hafi aldrei verið að rannsaka meinta spillingu Biden-feðganna. Ætlunin hafi verið að valda hugsanlegum andstæðingi Trump skaða.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið átti að fá 214 milljónir dollara til að veita Úkraínumönnum fjárhagsaðstoð en greiðslunni var seinkað.

Trump neitar því að hafa vitað um þrýstinginn sem Úkraínumenn voru beittir. Hann hefur verið ákærður til embættismissis en gert er ráð fyrir að réttarhöld yfir honum í öldungadeildinni hefjist í næstu viku.

mbl.is