Mikhail Mishustin nýr forsætisráðherra Rússlands

„Fólk ætti nú þegar vera farið að finna fyrir breytingum …
„Fólk ætti nú þegar vera farið að finna fyrir breytingum til hins betra,“ sagði Mishustin þegar hann gerði grein fyrir stefnumálum sínum í Dúmunni í dag. AFP

Neðri deild rússneska þingsins, Dúman, samþykkti í dag að Mik­hail V. Mis­hust­in taki við embætti forsætisráðherra af Dímítrí Med­vedev. 

Rík­is­stjórnin sagði óvænt af sér í gær, ein­ung­is ör­fá­um klukku­stund­um eft­ir að Vla­dimír Pútín for­seti lands­ins kynnti um­fangs­mikl­ar breyt­ing­ar sem hann ætl­ar sér að gera á stjórn­ar­skrá lands­ins.

Mishustin er lítt þekkt­ur emb­ætt­ismaður, en hann hefur gegnt starfi rík­is­skatt­stjóra Rúss­lands í áratug. 

„Fólk ætti nú þegar vera farið að finna fyrir breytingum til hins betra,“ sagði Mishustin þegar hann gerði grein fyrir stefnumálum sínum í Dúmunni í dag. Að því loknu var gengið til atkvæðagreiðslu. Enginn var á móti en þingmenn Kommúnistaflokksins sátu hjá. 

Fyr­ir­hugaðar breyt­ing­ar munu færa völd frá for­seta­embætt­inu og til þings­ins og rík­is­ráðs lands­ins, en það síðar­nefnda hef­ur ekki mik­il form­leg völd í dag. Pútín sagði að breyt­ing­arn­ar yrðu lagðar fyr­ir þjóðina í þjóðar­at­kvæðagreiðslu.

Mishustin fær nú viku til að skipa nýja ráðherra og mynda ríkisstjórn.

Med­vedev verður Pútín áfram til halds og traust að því er virðist, þar sem Pútín hyggst stofna embætti varaformanns Þjóðaröryggisráðs fyrir Medvedev en sjálfur er Pútín formaður ráðsins. 

Alexei Navalny, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir í færslu á Twitter að ljóst sé að eina markmið Pútíns sé að „sitja einn í embætti um ókomna tíð“. 

mbl.is