Minnkandi líkur á að Big Ben láti í sér heyra

AFP

Minnkandi líkur virðast á því að Big Ben, klukkan stóra í Elísabetar-turninum í London, muni hljóma þegar Bretland gengur úr Evrópusambandinu formlega 31. janúar klukkan 23:00. Ástæðan er viðgerðir sem staðið hafa yfir á turninum.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að þrátt fyrir að Boris Johnson forsætisráðherra hafi tekið vel í hugmyndir um að Big Ben hljómi útgöngukvöldið og hvatt til þess að safnað yrði fyrir kostnaðinum af því verði líklega ekki af því.

Kostnaðurinn við að Big Ben hringi er áætlaður 500 þúsund pund þar sem koma þurfi málum þannig fyrir að klukkan geti hringt en það getur hún ekki eins og sakir standa vegna viðgerðanna. Þegar hefur verið safnað 50 þúsund pundum.

Talsmenn forsætisráðuneytisins þykja hafa talað á þann veg að líklega verði ekkert af því að Big Ben hringi. Möguleg vandkvæði eru talin fylgja því að mati embættismanna ríkisstjórnarinnar að almenningur og fyrirtæki fjármagni hringinguna.

Haft er eftir talsmönnunum að ríkisstjórnin muni engu að síður fagna tímamótunum með öðrum hætti. Þingmaðurinn Mark Francois segist ekki trúa því að Johnson muni snúa baki við framtaki sem hann sjálfur hafi sett af stað safnist nægt fé.

mbl.is