Annar látinn í nýjum lungnabólgufaraldri

Ljósmynd tekin utan við matarmarkaðinn þar sem útbreiðsla sjúkdómsins er …
Ljósmynd tekin utan við matarmarkaðinn þar sem útbreiðsla sjúkdómsins er talin hafa hafist. AFP

Maður á sjötugsaldri lét lífið í borginni Wuhan í Kína á miðvikudag, en hann er annað fórnarlamb afbrigðilegrar lungnabólgu af völdum kórónaveiru þar í borg.

Um er að ræða lungnasjúkdóm sem ekki hefur fundist áður en svipar þó til SARS, sem dró hundruð manna til dauða, aðallega í Suður-Kína og Hong Kong, á árunum 2002 til 2003.

Á fimmta tug hefur smitast af veirunni síðan í lok desember, en hún er talin eiga upptök sín á sjávarréttamarkaði í borginni Wuhan. Tólf hafa jafnað sig af veikindunum en fimm eru í lífshættu á sjúkrahúsi. Þá hafa þrjú smit greinst utan Kína, tvö í Taílandi og eitt í Japan, en þau smituðu höfðu öll verið í Wuhan.

Embætti landlæknis hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins, en eins og er er ekki talin ástæða til sértækra aðgerða eða ferðatakmarkana til Suður-Kína.

mbl.is