Sjö létust í særingarathöfn

Lögregla á vettvangi kirkjusafnaðarins þar sem fólkið var að öllum …
Lögregla á vettvangi kirkjusafnaðarins þar sem fólkið var að öllum líkindum myrt. AFP

Sjö létust í frumskógi í Panama í því sem virðist hafa verið trúarathöfn eða jafnvel særingarathöfn. Fimmtán til viðbótar var bjargað, en þau höfðu verið bundin föst og lamin, meðal annars með biblíum.

Þau látnu eru þunguð kona, fimm börn hennar og 17 ára gömul stúlka. Lögreglan í Panama hefur handtekið tíu í tengslum við málið.

Gröf þeirra látnu fannst í skóginum við leit lögreglu, sem hafði fengið tilkynningu um að þar væru nokkrar fjölskyldur í haldi kirkjusafnaðar frumbyggja sem kallast New Light of God.

Auk þeirra látnu fundust fimmtán særðir á svæðinu.
Auk þeirra látnu fundust fimmtán særðir á svæðinu. AFP

Saksóknari í málinu lýsir athöfninni svona: „Þau voru að framkvæma trúarathöfn. Í henni var fólki haldið gegn vilja sínum og því misþyrmt. Athöfninni var ætlað að drepa þau ef þau iðruðust ekki synda sinna.“

Búist er við því að þau grunuðu verði leidd fyrir dómara í dag, en meðal þeirra er einn ólögráða, auk þess sem heimildir fréttastofu AFP herma að faðir óléttu konunnar, sem fannst í gröfinni, sé meðal hinna grunuðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert