Facebook biðst afsökunar á þýðingu sinni

Xi Jinping, forseti Kína, og Aung San Suu Kyi heilsast …
Xi Jinping, forseti Kína, og Aung San Suu Kyi heilsast í dag. AFP

Tæknirisinn Facebook baðst í dag afsökunar á rangri og afar óheppilegri þýðingu á nafni Xi Jinping, forseta Alþýðulýðveldisins Kína. Þýðingin sem um ræðir var af búrmönsku yfir á ensku, en forsetinn heimsótti nýlega Mjanmar. 

Tveggja daga heimsókn Xi til höfuðborgar Mjanmar, Naypyidaw, er fyrsta heimsókn kínversks leiðtoga til landsins í tvo áratugi. 

Það skyggði þó heldur á þessa sögulegu heimsókn forsetans að sjálfvirkur þýðingareiginleiki Facebook þýddi nafn forsetans úr búrmönsku yfir á ensku sem „Herra Skítahola“ eða „Mr Shithole“ upp á ensku. 

Eftirtektarverðust var þýðingin óheppilega í færslum nóbelsverðlaunahafans Aung San Suu Kyi. „Herra Skítahola, forseti Kína, mætir klukkan 4 eftir hádegi,“ sagði í þýddri færslu leiðtogans. 

Talsmaður Facebook sagði í samtali við AFP að tæknirisinn hefði nú „lagað vandamál í tengslum við þýðingar af búrmönsku á ensku“. 

„Við biðjumst innilegrar afsökunar á þeim særindum sem þetta hefur valdið.“

Facebook sagðist ekki geta gefið nánari upplýsingar um þýðinguna, svo sem hvort um netþrjóta hafi verið að ræða eða eitthvað annað. 

Samfélagsmiðillinn nýtur mikilla vinsælda í Mjanmar, en er bannaður í Kína.

mbl.is