Úrhelli og þrumuveður er nú á nokkrum svæðum á austurströnd Ástralíu þar sem kjarr- og gróðureldar hafa geisað. Tekist hefur að slökkva í nokkrum eldum en enn loga miklir eldar í suður- og suðausturhluta Ástralíu. Úrkoman síðustu daga er þó svo mikil á nokkrum stöðum að vegir hafa rofnað og ár flætt yfir bakka sína.
Þá varar veðurstofan í Queensland við hættulegum flóðum á suðausturströndinni, rétt við Nýja Suður-Wales þar sem eldarnir hafa verið sem mestir. Þar loga enn eldar en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði fylkisins hefur þeim fækkað úr rúmlega hundrað í 75 eftir að fór að rigna.
Kjarreldarnir hafa geisað frá því í september og orðið 28 manns að bana og þúsundir heimila hafa orðið eldinum að bráð.
Eitt lengsta þurrkatímabil í Ástralíu er nú að baki og gert er ráð fyrir áframhaldandi úrkomu fram yfir helgi.