Lögðu á ráðin um að steypa Bandaríkjastjórn af stóli

Mennirnir þrír eru sagðir félagar í The Base, alþjóðlegum samtökum …
Mennirnir þrír eru sagðir félagar í The Base, alþjóðlegum samtökum hvítra þjóðernissinna.

Þrír liðsmenn bandarísks félagsskapar um yfirburði hvítra manna hafa verið handteknir, grunaðir um að leggja á ráðin um að steypa af stóli bandarísku ríkisstjórninni og drepa tvo andfasíska aðgerðasinna.

Lögregla í Atlanta í Bandaríkjunum segir að þremenningarnir séu í félaginu The Base, sem bandarískir saksóknarar hafa lýst sem alþjóðlegum samtökum hvítra þjóðernissinna sem ræði um ofbeldisfullar aðgerðir gegn minnihlutahópum.

Mennirnir þrír eru á aldrinum 19 til 25 ára og búsettir í Georgíuríki í Bandaríkjunum. Hugðust þeir „flýta hruni bandarísku ríkisstjórnarinnar, koma á kynþáttastríði og stofna hvítt þjóðríki [e. white ethnostate]“ að því er fram kemur í yfirlýsingu frá lögreglu. Höfðu þeir vaktað heimili í Bartow-sýslu í Georgíu með það fyrir augum að skjóta aðgerðasinnapar sem þar býr.

Bandaríska alríkislögreglan hafði handtekið mennina á fimmtudag fyrir ólöglegan vopnaburð, en í ákæru hennar kom ekki fram hvað mennirnir hugðust gera við rifflana. Hafa bandarískir fjölmiðlar þó greint frá því að þremenningarnir hafi rætt um að mæta á ráðstefnu stuðningsmanna um réttindi til byssueignar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert