„Mun áhyggjufyllri nú en fyrir viku“

Upptök sjúkdómsins eru talin vera á sjáv­ar­rétta­markaði í borginni Wuhan …
Upptök sjúkdómsins eru talin vera á sjáv­ar­rétta­markaði í borginni Wuhan í desember og hefur honum verið lokað. AFP

Tilfelli dularfulls sjúkdóms eru að öllum líkindum mun fleiri en kínversk yfirvöld hafa greint frá. Þetta er mat vísindamanna sem breska ríkisútvarpið hefur rætt við. 

Um er að ræða bráðan lungna­sjúk­dóm sem ekki hef­ur fund­ist áður en svip­ar þó til SARS, sem dró hundruð manna til dauða, aðallega í Suður-Kína og Hong Kong, á ár­un­um 2002 til 2003.

Upptök sjúkdómsins eru talin vera á sjáv­ar­rétta­markaði í borginni Wuhan í desember og heilbrigðisyfirvöld í Kína segja að 45 tilfelli hafi verið staðfest. Tveir hafa látið lífið af völdum sjúkdómsins. 

„Ég er mun áhyggjufyllri nú en fyrir viku,“ segir Neil Ferguson, prófessor í faraldursfræði við Imperial College í London, í samtali við BBC. Sérfræðingateymið telur að á annað þúsund manns hafi smitast af sjúkdómnum. 

Teymið hefur einnig skoðað gögn yfirvalda um smit utan Kína en þau eru aðeins þrjú, tvö í Taílandi og eitt í Japan. Ef flugferðir til og frá alþjóðaflugvellinum í Wuhan eru teknar með í myndina telja vísindamennirnir að tilfellin séu að minnsta kosti 1.700 og þá er eingöngu miðað við síðustu viku. 

Ferguson segir þó fullsnemmt að koma með hrakspár. Fólk þurfi hins vegar að vera meðvitað um að sjúkdómurinn geti smitast manna á milli. 

Embætti land­lækn­is hef­ur sent frá sér til­kynn­ingu vegna máls­ins, en eins og er er ekki tal­in ástæða til sér­tækra aðgerða eða ferðatak­mark­ana til Suður-Kína. Einstaklingar sem koma hingað til lands frá Wuhan-borg í Kína með kvef, hósta og hita eru beðnir um að upplýsa heilbrigðisstarfsmenn um sínar ferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert