Olíufyrirtæki styrkir forsæti Króata í ESB

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Andrej Plenkovic, …
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Andrej Plenkovic, forsætisráðherra Króatíu, á fundi fyrr í mánuðinum sem markaði upphafi forsætis landsins. AFP

Króatíska olíufélagið INA er einn styrktaraðila sex mánaða forsætis Króata í ráðherraráði Evrópusambandsins, sem hófst nú um áramót. Frá þessu greinir fréttavefurinn EUobserver.

Fyrirtækið, sem er að hluta til í ríkiseigu, verður kynnt sem „opinber eldsneytisbirgir“ forsætisins, sem kann að þykja kaldhæðnislegt á sama tíma og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nýverið kynnt svonefndan Grænan samfélagssáttmála (European Green Deal) um 100 milljarða evra fjárfestingaráætlun sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja að sambandið verði „kolefnishlutlaust“ árið 2050.

Í skriflegu svari skrifstofu króatíska forsætisins við fyrirspurn EUobserver kemur fram að samið hafi verið við sjö króatísk fyrirtæki um stuðning, en meðal þeirra eru matvælafyrirtækin Jana, Franck og Juicy.

Orðið að hefð

Stuðningur fyrirtækjanna mun fara í kostnað sem króatíska ríkið ber af fundahaldi vegna forsætisins. Hefð hefur skapast innan sambandsins um að sú þjóð sem tekur að sér forsæti, í sex mánuði í senn, leiti á náðir stórfyrirtækja til að ná upp í þann kostnað. Má þar nefna að Finnar, sem fóru með forsætið á seinni hluta síðasta árs, sömdu við stórfyrirtæki á borð við BMW, Renault, Mercedes og Coca-Cola, við misjöfn viðbrögð.

Tæplega hundrað Evrópuþingmenn rituðu bréf til finnskra stjórnvalda, sem fóru með forsætið seinni hluta síðasta árs, þar sem þeir fóru fram á meira gagnsæi við ákvörðun á styrktaraðilum, en hvöttu jafnframt til þess að lokað yrði á aðkomu fyrirtækja að forsætinu enda hefðu þau mörg hver hagsmuni af því að hafa áhrif á ákvarðanatöku sambandsins.

Þá hefur Emily O'Reilly, umboðsmaður Evrópusambandsins, viðrað áhyggjur af því að auglýsingasamningarnir kunni að gefa þá mynd að fyrirtækin hafi völd yfir lagasetningu og ákvarðanatöku innan sambandsins.

mbl.is