„Hafa þau aldrei séð geiminn?“

Nýi „geimbúningurinn“ var kynntur á Twitter.
Nýi „geimbúningurinn“ var kynntur á Twitter. Ljósmynd/Bandaríski geimherinn

Hinn nýstofnaði bandaríski geimher hefur kynnt nýja einkennisbúninga sína. Búningarnir eru í hefðbundnum felulitum, mógrænir og brúnir, og hafa fyrir vikið orðið skotspónn grínista á netinu sem velta fyrir sér hvernig jarðarlitirnir muni nýtast sem felulitur í geimnum. „Hafa þau aldrei séð geiminn?“ spyrja notendur á Twitter.

Talsmenn geimhersins útskýrðu þó að ástæðan fyrir búningavalinu væri einfaldlega sú að geimherinn væri að nýta eldri hönnun og spara sér þannig fé í hönnun og framleiðslu nýrra búninga. Þá myndu hermenn geimhersins líta út eins og félagar þeirra úr öðrum deildum á jörðu niðri. 

Geimherinn er sjötta deild bandaríska hersins, til viðbótar við land­her, flug­her, land­helg­is­gæslu, flot­a og land­göngulið flot­ans. Hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti sagt að deildin muni hjálpa bandaríska hernum að hindra árásir í því sem hann kallar „nýjasta umdæmi stríðs í heiminum“.

Þar með er þó ekki sagt að bandarískir „geimhermenn“ verði staðsettir í geimnum, sem skýrir búningavalið. Þess í stað mun geimherinn sjá um að verja bandarískar eignir í heiminum, svo sem hundruð gervihnatta Bandaríkjamanna á sporbaug um jörðu. Að sögn Barböru Barrett, yfirmanns flughersins, mun geimherinn hafa á að skipa 16.000 starfsmönnum, en fjárlög hans fyrir yfirstandandi ár nema um 4,5 milljörðum króna.

Þessar útskýringar drógu þó ekki þróttinn úr grínistum, sem hefðu heldur viljað hafa búninginn svartan eða í einhvers konar „geimlitum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert