Ráðherrar geta átt von á brottrekstri

Boris Johnson á að hafa sagt við ráðherra sína að …
Boris Johnson á að hafa sagt við ráðherra sína að þeir eigi að einbeita sér að því að ná árangri og vinna að því af öllu afli að efla Bretland eftir Brexit, annars geti þeir átt von á að missa sæti sitt í ríkisstjórninni. AFP

Ráðherrar bresku ríkisstjórnarinnar eiga að beita öllum sínum kröftum í að móta stefnu fyrir Bretland eftir að ríkið gengur úr Evrópusambandinu í lok mánaðarins. Annars geta þeir átt von á því að vera reknir úr embætti. 

Þetta eru skilaboð Boris Johnson til ráðherra sinna, ef marka má heimildir The Guardian. Johnson á að hafa sagt við ráðherra sína að þeir eigi að einbeita sér að því að ná árangri og vinna að því af öllu afli að efla Bretland eftir Brexit. Hann vill ekki sjá það að þeir „ferðist milli sjónvarpsstöðva“ til að koma sjálfum sér á framfæri. 

Ráðherrarnir eiga von á bréfi frá Munira Mirza, yfirmanni stefnumarkandi nefndar forsætisráðuneytisins, þar sem þeim verður greint frá því að störf þeirra felist fyrst og fremst í því að skila stefnu forsætisráðherrans til þjóðarinnar áður en hlé verður gert á þingstörfum í febrúar. Ef þessu verður ekki framfylgt geta ráðherrarnir átt von á því að þurfa að taka pokann sinn. 

Stuðningur við Johnson í embætti eftir kosningarnar hefur komið nokkuð á óvart. Samkvæmt nýrri könnun í sunnudagsblaðinu Observer segjast 40% svarenda forsætisráðherrann standa sig betur en þeir bjuggust við. Jafn hátt hlutfall segist líta hann jákvæðari augum nú en fyrir kosningarnar í byrjun desember.

mbl.is