„Sussex-hjónin höfðu betur“

Sussex-hjónin höfðu betur því þau fengu það sem þau vildu; …
Sussex-hjónin höfðu betur því þau fengu það sem þau vildu; sjálfstæði frá konungsfjölskyldunni. Það er að minnsta kosti mat konunglegs fréttaritara Vanity Fair. AFP

Engir konunglegir titlar. Engar konunglegar skyldur. Engar hernaðarlega stöðuveitingar. Engar opinberar heimsóknir og ekkert fjármagn frá hinu opinbera. Á þennan veg mætti lýsa framtíð Harry og Meghan, framtíð sem þau hafa kosið. 

Harry Bretaprins og Meg­h­an her­togaynja tilkynntu í gær að þau muni fram­veg­is ekki bera kon­ung­lega titla sína. Breytingin mun taka gildi í vor samkvæmt upplýsingum frá Buckingham-höll. Hjónin hyggjast borga til baka kostnað vegna end­ur­bóta á Frog­more-hús­inu, um 2,4 milljónir punda eða sem nemur tæplega 390 milljónum króna. Frogmore-húsið verður áfram sam­astaður þeirra í Bretlandi.

Hjónin hafa verið mikið í umræðunni í upphafi árs eða frá því þau sögðust ætla að draga sig í hlé frá hefðbundn­um störf­um kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar og verja meiri tíma í Norður-Am­er­íku. Einróma álit konunglegra fréttaritara er á þá leið að hertogahjónin ætli alfarið að slíta á formleg tengsl við konungsfjölskylduna, þrátt fyrir að þau verði ávallt „mikilvægur hluti af fjölskyldu drottningarinnar“, líkt og orðað er í tilkynningu Elísabetar Englandsdrottningar þar sem hún segist munu styðja „umbreytingartímabil“ hjónanna. 

Archie var sjöundi í erfðaröð að krúnunni, á eftir föður …
Archie var sjöundi í erfðaröð að krúnunni, á eftir föður sínum, Harry, áður en Harry og Meghan afsöluðu konunglegum titlum sínum. Skjáskot/BBC

„Svona nokkuð hefur aldrei gerst áður“

Tíðindin eru vissulega sláandi og segir Daniela Relph, konunglegur fréttaritari, tímann sem fram undan er hjá bresku konungsfjölskyldunni mjög mikilvægan. Þó svo Harry og Meg­h­an séu ekki fyrsta kon­ungs­fólkið sem hugn­ast ekki að lifa líf­inu und­ir smá­sjá fjöl­miðla og al­menn­ings segir Relph ákvörðun þeirra vera einstaka.

„Það er augljóst hvaða braut þau vilja feta,“ segir Relph, sem telur að fyrsta árið eftir að þau afsala sér konunglegum titlum muni varpa ljósi á hvort ákvörðunin verði þess virði eða ekki.

Hluti af fjölskyldunni en ekki konungleg

„Það er ekki hægt að hugsa sér meira afgerandi umskipti en þessi. Harry og Meghan eru enn hluti af konungsfjölskyldunni, en á sama tíma eru þau ekki konungleg,“ segir Jonny Dymond, konunglegur fréttaritari breska ríkisútvarpsins

Þegar Harry og Meghan sögðust ætla að draga sig í hlé hljómaði það í fyrstu eins og þau ætluðu að lifa blönduðu lífi, sinna konunglegum skyldum í bland við að verja meiri tíma í Norður-Ameríku, líklega Kanada þaðan sem Meghan er. En eftir tíðindi gærdagsins er alveg ljóst hvert stefnir. 

Katie Nicholl, konunglegur fréttaritari Vanity Fair, segir það ekki fara á milli mála að ákvörðun Harry og Meghan að afsala sér konunglegum titlum veiki bresku krúnuna sem stofnun. „Sussex-hjónin höfðu betur því þau fengu það sem þau vildu, sem er sjálfstæði frá konungsfjölskyldunni.“

Þá segir hún að Harry og Meghan séu að setja fordæmi fyrir þá sem yngri eru innan konungsfjölskyldunnar sem gæti orðið áhugavert að fylgjast með í nánustu framtíð. 

Mörgum spurningum er enn ósvarað um ýmis praktísk atriði er varða framtíð Harry og Meghan, til að mynda þegar kemur að skattamálum, öryggismálum og hvort Meghan muni sækja um breskan ríkisborgararétt líkt og stefnt var að þegar hún varð hluti af konungsfjölskyldunni. Eitt er víst: Konungssinnar víða um heim munu halda áfram að fylgjast með hverju skrefi Harry, Meghan og Archie.

Archie mun aldrei þurfa að sinna konunglegum skyldum.
Archie mun aldrei þurfa að sinna konunglegum skyldum. AFP
mbl.is