200 greindir og sýkingin breiðist út

Hér bera heil­brigðis­starfs­menn sjúk­ling sem greind­ist með veiruna í ein­angr­un.
Hér bera heil­brigðis­starfs­menn sjúk­ling sem greind­ist með veiruna í ein­angr­un. AFP

Fleiri en 200 tilfelli dularfullrar lungnasýkingar hafa greinst í Kína og eru tilfellin því um þrefalt fleiri en fyrir helgi. Flest þeirra hafa greinst í Wuhan, borginni þar sem sýkingin greindist fyrst, en sýkingar hafa einnig greinst í Peking, Sjanghæ og Shenzhen.

Þrír hafa látist vegna sýkingarinnar og er hún farin að breiðast út en tilfelli hafa ekki einungis komið upp í Kína heldur einnig í Japan, Taílandi og Suður-Kóreu. BBC greinir frá þessu.

Þessi mikla fjölgun tilfella kemur í ljós á sama tíma og milljónir Kínverja búa sig undir að ferðast vegna kínverska nýársins. 

Nátengd SARS sem dró 774 til dauða

Sýkingin fannst fyrst í Wuhan í desember og er orsakavaldur hennar kórónaveira. Um er að ræða einhvers konar lungnabólgufaraldur en lítið er vitað um hann og eru engin lyf til við sýkingunni. 

Þrátt fyrir að talið sé að sýkingin eigi upphaf sitt að rekja til matarmarkaðar í Wuhan á enn eftir að finna út hvernig hún hefur breiðst út. 

Sýkingunni svipar um margt til SARS-vírussins sem kom einnig til vegna kórónaveiru. 774 týndu lífi vegna hans í hinum ýmsu löndum Asíu. Greiningar á sýkingunni sem nú herjar á Asíu sýna að hún er tengdari SARS-vírusnum en nokkrum öðrum kórónavírusi. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að ef lungnasýkingin bærist hingað til lands væri einangrun eina úrræðið þar sem engin lyf væru til við sýkingunni.

mbl.is