Hlupu fram hjá þjóðvarðliðum og inn í Mexíkó

Mörg hundruð manns óðu yfir Suchiate-ána á landamærum Gvatemala og …
Mörg hundruð manns óðu yfir Suchiate-ána á landamærum Gvatemala og Mexíkó í dag og stefna til Bandaríkjanna. AFP

Til átaka kom á landamærum Mexíkó og Gvatemala í dag, er hundruð karla, kvenna og barna frá löndum Mið-Ameríku, aðallega Hondúras, óðu yfir Suchiate-ána á landamærunum í óþökk mexíkóskra landamæravarða. Flestir ætla sér alla leið til Bandaríkjanna.

Breska ríkisúvarpið BBC fjallar um þetta og segir í frétt þess að mexíkóskir þjóðvarðliðar með óeirðaskildi hafi reynt að varna farandfólkinu inngöngu í Mexíkó, en mörg hundruð hafi komist alla leið.

Mexíkóskir þjóðvarðliðar eru sagðir hafa verið grýttir af farandfólkinu.
Mexíkóskir þjóðvarðliðar eru sagðir hafa verið grýttir af farandfólkinu. AFP

Þjóðvarðliðið beitti táragasi, samkvæmt fregnum af átökum dagsins, og þá munu þeir sem ætluðu sér yfir ánna einnig hafa grýtt lögreglu. Farandsfólkið kemur sem áður segir flest allt frá Hondúras, en hefur undanfarna daga hafst við í tjaldbúðum á landamærunum og reynt að komast að samkomulagi við yfirvöld í Mexíkó um að fá að komast í gegnum landið á leið sinni til Bandaríkjanna.

Segjast flýja ofbeldi og fátækt í Hondúras

Fram kemur í frétt BBC að margir í hópnum, sem telur þúsundir karla, kvenna og barna, segist vera að flýja ofbeldi, fátækt og háa morðtíðni. „Við urðum örvæntingarfull út af hitanum. Þetta er okkur ofviða, sérstaklega börnunum,“ sagði Elvis Martinez, einn úr hópnum, við AFP-fréttastofuna.

AFP

Stjórnvöld í Mexíkó hafa reynt að stemma stigu við frjálsri för fólks frá Gvatemala, í gegnum Mexíkó og til Bandaríkjanna allt frá því í júní, eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði því að hækka tolla á innflutningsvörur frá Mexíkó ef ekki yrði gripið til aðgerða. Stjórnvöld í Mexíkó brugðust við með því að senda herlið bæði til suður- og norðurlandamæra ríkisins.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert