Hríðskotabyssur eins og skrúfjárn eða hamrar

Þúsundir bandarískra byssueigenda komu saman til mótmælafundar í borginni Richmond í Virginíu-ríki í dag til þess að mótmæla fyrirhuguðum þrengingum sem stjórnvöld í Virginíu-ríki hafa boðað gegn byssueign.

Mikill viðbúnaður var viðhafður af hálfu yfirvalda í borginni í dag, enda marseruðu mótmælendur með skotvopn sín um göturnar, margir hverjir ekki með neinar baunabyssur undir hendinni heldur hríðskotabyssur.

Allt fór þó friðsamlega fram, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði frá AFP, þar sem rætt er við nokkra byssueigendur og mótmælendur á staðnum.

„Það er engin ástæða til að vera hræddur, þetta er bara verkfæri, ekkert öðruvísi en ef ég væri með skrúfjárn eða hamar,“ segir einn þungvopnaður mótmælandi í samtali við AFP.

Annar mótmælandi segir að byssueigendur vilji breyta menningunni og gera fólk vanara því að sjá byssur á almannafæri. „Fólk venst þeim, fleiri eignast þær og fólk hættir að vera hrætt við þær,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert