Sjúkdómurinn dularfulli kominn til S-Kóreu

Yfirvöld í Suður-Kóreu staðfestu í dag að dularfullur lungnasjúkdómur sem dreifist mjög hratt í Kína sé kominn þangað. Staðfest hefur verið að 35 ára gömul kona sem flaug frá Wuhan, þar sem talið er að sjúkdómurinn eigi upptök sín, til Suður-Kóreu sé með kórónaveiruna. 

Sjúkdómurinn líkist SARS-vírusn­um sem dró tæp­lega 650 manns í Kína og Hong Kong til dauða á ár­un­um 2002-2003.

Konan á að hafa farið á sjúkrahús í Wuhan á laugardag þar sem hún var með kvefeinkenni. Fékk hún ávísað lyfjum áður en hún flaug til Incheon-flugvallar en þar var hún sett í einangrun. Ekki var staðfest fyrr en í dag að hún væri með sjúkdóminn en ástand hennar er stöðugt og er hún í einangrun á sjúkrahúsi. 

Heilbrigðisyfirvöld í S-Kóreu rannsaka nú ferðir konunnar og hvort hún hafi komist í snertingu við einhverja um borð í flugvélinni, þar á meðal flugliða. 

Yfirvöld í Wuhan segja að allt virðist benda til þess að upptök sjúkdómsins séu á sjávarafurðamarkaðnum í borginni án þess að hægt sé að útiloka annað. Markaðnum var lokað 1. janúar vegna þessa. Konan segist aftur á móti ekki hafa heimsótt markaðinn né heldur viti hún til þess að hafa komist í snertingu við smitaða í Wuhan. 

Kínversk yfirvöld hafa staðfest 139 ný tilvik sjúkdómsins sem virðist dreifast hratt frá Wuhan til annarra stórborga landsins. Alls eru staðfest tilvik komin yfir 200 og hafa þrír látist. Óttast er að sjúkdómurinn breiðist hratt út í kringum kínverska nýárið þar sem margir leggja land undir fót á þeim tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert