Tíu vígamenn dæmdir til dauða

Fimm létust og fjölmargir særðust í tilræðinu fyrir 19 árum.
Fimm létust og fjölmargir særðust í tilræðinu fyrir 19 árum. AFP

Tíu íslamskir vígamenn voru dæmdir til dauða í Bangladess í dag fyrir sprengjutilræði fyrir tæpum tveimur áratugum sem grandaði fimm manns.

Í janúar 2001 sprungu nokkrar sprengjur á fundi Kommúnistaflokks Bangladess í Daka, höfuðborg landsins. Niðurstaða rannsóknar lögreglu leiddi í ljós að félagar í flokki íslamista, Harkat-ul-Jihad al Islami (HUJI), hafi borið ábyrgð á árásinni en HUJI-flokkurinn er bannaður í landinu. Árásin var hluti af hrinu tilræða af hálfu liðsmanna HUJI sem höfðu tekið þátt í átökum í Afganistan og höfðu snúið heim til Bangladess. 

Að sögn saksóknara voru þeir tíu sem voru dæmdir til dauða í dag allir félagar í HUJI. Tveir félagar í kommúnistaflokknum sem voru ákærðir fyrir aðild að árásinni voru sýknaðir. 

mbl.is