Barði „illa anda“ úr börnum sínum

Dómarar í Assen í Hollandi, við upphaf þinghalds í morgun. …
Dómarar í Assen í Hollandi, við upphaf þinghalds í morgun. Málið hefur vakið athygli víða um Evrópu og er í erlendum miðlum þekkt sem „Ruinerwold-málið“. AFP

Hollendingurinn Gerrit Jan van Dorsten barði börn sín til að hrekja illa anda úr þeim og einangraði þau frá umheiminum um árabil, sögðu saksóknarar við þinghald í Hollandi fyrr í dag. Mál van Dorstens komst í hámæli í haust þegar einn sona hans gekk ráðvilltur inn á krá og bað um hjálp.

Sem fyrr segir er van Dorsten nú grunaður um að hafa beitt sex barna sinna alvarlegu líkamlegu ofbeldi á árabilinu 2007 til 2019. „Börnin tala öll um mjög miklar líkamlegar refsingar ef faðir þeirra taldi „illa anda“ vera í þeim. Þetta átti sér stað frá unga aldri, fjögurra til fimm ára,“ sagði saksóknari við þinghald í dag. Eldri börnunum þremur á svo að hafa verið bannað að tala um tilvist yngri systkina þeirra.

Varði sumri í hundahúsi

Er eitt barnanna talið hafa verið í refsiskyni bundið á höndum og fótum meðan annað var látið verja heilu sumri í hundakofa á sveitabænum sem þau bjuggu á.

Sögðu saksóknarar jafnframt að öll yngstu börnin sex hefðu búið í einangrun frá umheiminum, hefði verið haldið innandyra og gert að þegja svo enginn tæki eftir að þau væru til. Börnin voru ekki skráð hjá hollenskum yfirvöldum og höfðu aldrei gengið í skóla, að sögn saksóknara.

Lögmaður Gerrits Jan van Dorstens, Robert Snorn, kemur fyrir dóm …
Lögmaður Gerrits Jan van Dorstens, Robert Snorn, kemur fyrir dóm í morgun. AFP

Kýldi, sparkaði og neitaði um mat og drykk

Eins og áður segir á málið rætur að rekja til þess er elsti sonurinn gekk inn á krá og lýsti yfir áhyggjum vegna systkina sinna. Lögregla gerði í kjölfarið rassíu á sveitabænum og handtók van Dorsten og austurrískan mann að nafni Joseph B.

Van Dorsten var vegna heilsufarsástæðna fjarverandi við þinghald í morgun en hann er ákærður fyrir að hafa svipt börn frelsi sínu á árabilinu 2007 til 2019, og fyrir að „kýla þau, sparka í þau og neita þeim um mat og drykk“. Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa beitt tvö af þremur eldri börnunum kynferðislegu ofbeldi. Hinn austurríski Joseph B er er einnig ákærður fyrir að hafa svipt börnin frelsi. 

Fjölmiðlar á leið inn í dómshúsið í Assen.
Fjölmiðlar á leið inn í dómshúsið í Assen. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert