„Engum líkar vel við hann“

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. AFP

Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir í nýrri heimildarmynd að engum líki vel við forsetaframbjóðandann Bernie Sanders.

Clinton og Sanders sóttust bæði eftir tilnefningu Demókrataflokksins til forsetaembættis Bandaríkjanna árið 2016. Clinton stóð uppi sem sigurvegari en tapaði fyrir Donald Trump í forsetakosningunum. 

Í heimildarmyndinni vildi Clinton ekkert segja til um hvort hún styddi Sanders ef hann yrði  kjörinn forsetaefni Demókrataflokksins og etti kappi við Trump í kosningunum í nóvember.

„Hann var á Bandaríkjaþingi í mörg ár. Hann naut stuðnings eins öldungadeildarþingmanns,“ sagði Clinton, í fjögurra þátta heimildarmynd sem verður sýnd á streymisveitunni Hulu í mars.

„Engum líkar vel við hann, enginn vill vinna með honum, honum tókst ekki að áorka neinu,“ bætti hún við.

Bernie Sanders.
Bernie Sanders. AFP

Sanders, sem er vinstrisinnaður öldungadeildarþingmaður frá Vermont, er annar í skoðanakönnunum sem líklegasti andstæðingur Trumps í forsetakosningunum á eftir Joe Biden en á undan Elizabeth Warren. Fyrsta atkvæðagreiðslan um forsetaefni Demókrataflokksins verður eftir tvær vikur í Iowa.

mbl.is