Flogið á milli Belgrad og Pristínu á ný

Þýska lággjaldaflugfélagið Eurowings ætlar að fara á milli Pristínu og …
Þýska lággjaldaflugfélagið Eurowings ætlar að fara á milli Pristínu og Belgrad á næstunni. AFP

Beint flug mun hefjast á ný á milli Belgrad höfuðborgar Serbíu og Pristínu höfuðborgar Kosóvó á næstunni, en ekkert flugfélag hefur farið beint á milli borganna tveggja frá því í stríðinu á Balkanskaga fyrir um tveimur áratugum.

Stuttan tíma tekur að fljúga þarna á milli, en flugtíminn er einungis um 25 mínútur. Þýska flugfélagið Eurowings ætlar að fljúga þarna á milli, en samningar þess efnis voru undirritaðir í Berlín í gær.

Leiðtogar bæði Kosóvó og Serbíu þökkuðu Bandaríkjamönnum fyrir að hafa haft milligöngu um samninginn og sagði Aleksandar Vucic Serbíuforseti að stjórnvöld þar í landi væru tilbúin að grípa tækifæri sem þessi til þess að færa fólkið á Balkanskaga nær hvert öðru.

Kosóvó lýsti yfir sjálfstæði árið 2008 eftir að hafa brotist undan stjórn Serbíu, en Serbar telja héraðið enn tilheyra sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert