Flýta afgreiðslu ákærunnar á hendur Trump

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings.
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings. AFP

Öldungadeildarþingmaðurinn Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, greindi í gær frá fyrirkomulagi sem miðar að því að flýta afgreiðslu deildarinnar á ákæru fulltrúadeildarinnar á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir embættisbrot og hafna því að taka við gögnum frá demókrötum sem sýna eiga fram á sekt forsetans án þess að sérstök atkvæðagreiðsla fari fram um það.

Fram kemur á fréttavef bandaríska dagblaðsins New York Times að McConnell hafi greint frá þessu nokkrum klukkustundum eftir að lögfræðingateymi Trumps hafi hvatt öldungadeildina til þess að „hafna snarlega“ ákærunni á hendur forsetanum og sýkna hann með þeim rökum að demókratar myndu grafa varanlega undan forsetaembættinu ef þeim tækist að koma honum úr embætti vegna máls sem lögmennirnir sögðu að snerist um skiptar skoðanir á pólitískum álitamálum.

Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni.
Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni. AFP

Lögfræðingar Trumps sögðu enn fremur í 110 blaðsíðna greinargerð sinni til öldungadeildarinnar að ákæran á hendur forsetanum væri stjórnskipulegum vanköntum háð og skapaði hættulegt fordæmi. Í hvorugum lið ákærunnar, varðandi misnotkun á valdheimildum og það að halda upplýsingum frá þinginu, væri tilgreint hvaða lagagreinar hefðu verið brotnar og ljóst væri að markmið demókrata væri fyrst og fremst að refsa Trump fyrir utanríkisstefnu hans.

Demókratar hafa brugðist ókvæða við fyrirhuguðu fyrirkomulagi við afgreiðslu málsins í öldungadeildinni. Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, segir fyrirkomulagið benda til þess að McConnell hafi engan áhuga á að taka gögn demókrata til skoðunar. Verið væri að reyna að halda sannleikanum frá almenningi og bandaríska þjóðin myndi sjá í gegnum það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert