Fyrrverandi forstjóri Interpol í 13 ára fangelsi

Meng Hongwei við dómsuppkvaðninguna í dag.
Meng Hongwei við dómsuppkvaðninguna í dag. AFP

Fyrrverandi forstjóri Interpol, Meng Hongwei, sem var handtekinn þegar hann var í heimsókn í Kína árið 2018, var í dag dæmdur í rúmlega 13 ára fangelsi fyrir mútuþægni. 

Meng játaði við rétt­ar­höldin síðasta sumar að hafa þegið 2,1 millj­ón Banda­ríkja­dala, 266 millj­ón­ir króna, í mút­ur. Meng var áður var­aráðherra al­manna­ör­ygg­ismála Kína.

Meng Hongwei við réttarhöldin síðasta sumar.
Meng Hongwei við réttarhöldin síðasta sumar. AFP

Hann er einn sístækkandi hóps innan kínverska kommúnistaflokksins sem forseti Kína, Xi Jinping, hefur látið handtaka þar sem hann hefur talið þá pólitíska andstæðinga sína. 

Meng hvarf sporlaust þegar hann var í heimsókn í Kína en hann bjó í Frakklandi þar sem Interpol er með höfuðstöðvar. Síðar var hann ákærður fyrir að hafa þegið mútur og rekinn úr kommúnistaflokknum.

Eiginkona hans fékk pólitískt hæli í Frakklandi á síðasta ári en hún óttaðist að henni yrði rænt ásamt börnum þeirra. Alls fékk Meng þrettán og hálfs árs fangelsisdóm og gert að greiða tvær milljónir júana í sekt. Það samsvarar 36 milljónum króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert