„Hurðin þeyttist nokkra metra og splundraðist“

Tals­verðar skemmd­ir urðu á íbúðinni þar sem sprengj­an sprakk í …
Tals­verðar skemmd­ir urðu á íbúðinni þar sem sprengj­an sprakk í Husby og fjöl­marg­ar rúður brotnuðu í öðrum íbúðum. AFP

Sprengjurnar sem sprungu í norðvesturhluta Stokkhólms á þriðja tímanum í nótt sprungu með nokkurra mínútna millibili. Önn­ur sprengj­an sprakk í fjöl­býl­is­húsi í Kista, líklega á stigagangi, og hin í Hus­by, trúlega uppi á háalofti. Aðeins nokk­ur hundruð metr­ar eru á milli hús­anna. Sprengjan í Husby var öflugri en sú í Kista. 

„Hurðin mín þeyttist nokkra metra og splundraðist gjörsamlega,“ segir íbúi á fjórðu hæð í Husby, þar sem önnur sprengjan sprakk. 

Ein mann­eskja var flutt á sjúkra­hús með minni háttar meiðsl og 50 manns var gert að yf­ir­gefa heim­ili sín að því er segir í frétt sænska rík­is­út­varps­ins.

Sprengingarnar urðu með nokkurra mínútna millibili.
Sprengingarnar urðu með nokkurra mínútna millibili. AFP

Rannsókn lögreglu er í fullum gangi og hafa lögreglumenn rætt við vitni og skoðað myndefni úr eftirlitsmyndavélum á svæðinu. Þá er einnig verið að kanna hvort sprengingarnar tengist spreng­ingu í íbúðarhúsnæði Östermalm-hverfinu í síðustu viku, en sprengjan var ein kröft­ug­asta spreng­ing sem hef­ur orðið á svæðinu að sögn lögreglu. 

Alls var 121 ein sprengja sprengd í Svíþjóð á síðasta ári, ýmist í íbúðarhúsnæði eða á veitingastöðum, að því er fram kemur í samantekt Aftonbladet.

mbl.is